90% af íbúðauppbyggingu með stofnframlögum í Reykjavík

Fjármál Framkvæmdir

""

Reykjavíkurborg er með um 90% af óhagnaðardrifinni húsnæðisuppbyggingu með stofnframlögum í landinu og dregur þannig vagninn í uppbyggingu almennra íbúða.  Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Íbúðalánasjóði.

Skýrsla Íbúðalánasjóðs um íbúðauppbyggingu í landinu var meðal gagna sem lögð voru fram ásamt skýrslu Átakshóps ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Hún sýnir ennfremur að langflestar íbúðir sem eru í byggingu eru í Reykjavík og að staðfest uppbyggingaráform eru langflest í Reykjavík. Stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum koma til uppbyggingar á félagslegu leiguhúsnæði og gerð er sú krafa að starfsemi slíkra félaga sé ekki drifin af hagnaðarsjónarmiðum.

Í skýrslunni kemur fram að um 6.600 íbúðir eru í byggingu á svæðum sem skilgreind eru sem kjarna og vaxtarsvæði en þar af eru um 5.300 á höfuðborgarsvæðinu, þar af eru 3.325 í Reykjavík. Áætlað er að framkvæmdum ljúki við yfir 6.000 íbúðir á næstu tveimur árum en þar af eru 4.900 á höfuðborgarsvæðinu. Um 1.300 íbúðir eru í byggingu hjá húsnæðisfélögum sem starfa án hagnaðarsjónarmiða - þar af eru 1.100 í Reykjavík. Á næstu tveimur árum gætu 2.000 íbúðir í þeim flokki farið í uppbyggingu til viðbótar.

Íbúðalánasjóður bendir á að húsnæðisvandinn snúist ekki endilega um skort á íbúðum í byggingu heldur vanti íbúðir fyrir þá sem eru tekjulægri og standa höllum fæti. Samkvæmt skýrslunni er Reykjavík þar langt á undan öðrum sveitarfélögum varðandi veitingu stofnframlaga til óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga sem byggja húsnæði fyrir stúdenta, eldri borgara og tekjulága samanber uppbyggingu Bjargs í Reykjavík.

  „Með hliðsjón af fjölda íbúða í byggingu á úthlutunarhæfum byggingarsvæðum og á svæðum þar sem deiliskipulag hefur verið samþykkt má ætla að byggðar verði 3.100 íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2022, þar af 90% í Reykjavík,“ segir í skýrslunni.

Fjöldi íbúða í byggingu í Reykjavík núna er 3.325 en í öllum hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu eru 1.938 íbúðir í byggingu; samtals eru íbúðirnar 5.263. Til samanburðar er Kópavogur í öðru sæti með 670 íbúðir í byggingu.

Í skýrslunni er áætlaður fjöldi íbúða á fyrirhuguðum uppbyggingarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu - en þar er Reykjavík með 17.300 íbúðir í ferli. Skiptingin er þannig að 3.300 íbúðir eru áætlaðar á úthlutunarhæfum byggingarsvæðum, 1.300 á svæðum þar sem deiliskipulag hefur verið samþykkt, 7.600 á svæðum í skipulagsferlum og 5.100 á þróunarsvæðum.  Í samanburði er áætlaður fjöldi íbúða á fyrirhuguðum byggingarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu öllu 33.600.

Varðandi húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík hefur borgin sett sér samningsmarkmið til að tryggja félagslega blöndun í öllum hverfum borgarinnar. Er alls staðar gert ráð fyrir að 20-25% af íbúðum séu leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir eða félagslegar enda er það talið hyggilegt til að byggja upp farsælt samfélag.

Samantekt Íbúðalánasjóðs