70 tillögur um útilistaverk í Vesturbæ

Menning og listir

""

Alls bárust 70 tillögur í samkeppni um útilistaverk í Vesturbænum. Dómnefnd bíður nú það erfiða verk að velja vinningstillögur.

Í kjölfar íbúakosningar í verkefninu Hverfið mitt haustið 2019 var ákveðið að efna til samkeppni um gerð útilistaverks til uppsetningar í Vesturbæ Reykjavíkur.

Áhugasamir sendu tillögu að listaverki og er dómnefnd skipuð fulltrúum Reykjavíkurborgar og SÍM að vinna úr innsendum tillögum og velja vinningstillögur. Niðurstöður verða ljósar þegar sumri hallar.

Samkeppnin var haldin samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM). Sjötíu tillögur bárust fyrir skilafrest, 21. maí síðastliðinn.

Við val á listaverki verður metið á hvern hátt verkið auðgar mannlíf í Vesturbæ, fegrar eða virkjar vannýtt svæði og skapar spennandi umhverfi.

Staðarval er opið en hverfið afmarkast af Suðurgötu og Garðastræti til austurs og mörkum Reykjavíkur og Seltjarness til vesturs. Listaverkið mun setja svip á almannarými í hverfinu.

Nánar um keppnina