7. bekkingar úr Fossvogsskóla fræðast um mannréttindamál

Skóli og frístund Mannlíf

""

50 ungmenni sem eru í 7. bekk í Fossvogsskóla heimsóttu Ráðhús Reykjavíkur í morgun. Þau fóru í skoðanaferð um húsið, fóru í borgarstjórnarsalinn og fengu svo fræðslu um mannréttindamál. 

Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar og Joanna Marcinkowska verkefnisstjóri og ráðgjafi á mannréttindaskrifstofu tóku á móti ungmennunum. Farið var í skoðunarferð um ráðhúsið og endað í borgarstjórnarsalnum þar sem þau voru frædd um borgarstjórn og útskýrt fyrir þeim hvernig fundir færu fram og fleira.

Að því loknu fengu þau hressingu og síðan var haldin fræðsla um starfsemi Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Farið var yfir mannréttindasáttmálann og mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar þar sem megininntakið er að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.  Ennfremur var rætt var um fjölbreytileika, fjölmenningu út frá ýmsum hliðum og margt fleira.