62 börn byrja í nýrri Ævintýraborg í september

Skóli og frístund

Opnun Ævintýraborgar við Nauthólsveg

Starf í Ævintýraborg við Nauthólsveg er komið vel af stað. Fyrstu börnin sem höfðu verið í húsnæði Ævintýraborgar við Eggertsgötu fluttust yfir á fimmtudaginn í síðustu viku og fyrsti hópur nýrra barna hóf aðlögun á mánudag.

14 börn hefja aðlögun í næstu viku

Gestum var boðið nú seinnipartinn í dag til að skoða leikskólann og umhverfið. Útlit var fyrir að opnun leikskólans myndi seinka fram í október þegar ljóst var að lóðin yrði ekki tilbúin í tíma. Til að bregðast við þessu hefur verið útbúin bráðabirgða lóð og Öskjuhlíðin með sínum fallegu áfangastöðum og gönguleiðum verður nýtt til útiveru og ævintýra. Þetta var gert í samráði við foreldra barna sem biðu eftir plássi í leikskólanum.

48 börn og 26 starfsmenn hafa því verið við leik og störf í leikskólanum í þessari viku. Í næstu viku er von á 14 börnum í aðlögun en svo verður gert tveggja vikna hlé áður en aðlögun heldur áfram. Það er gert til að að starfsfólk og börn nái að lenda og kynnast áður en ný börn bætast í hópinn.