5,7 milljarðar í viðhaldsframkvæmdir í ár

Umhverfi

""

Reykjavíkurborg fer í viðhaldsframkvæmdir fyrir tæpa 5,7 milljarða króna í ár. Þar af er milljarður króna áætlaður í sérstök viðhaldsverkefni sem hluta af atvinnuátaki vegna COVID-19.

Að öðru leyti er um að ræða hefðbundið árlegt viðhald á fasteignum, lóðum, götum, göngu- og hjólastígum, götulýsingu, leikvöllum og opnum svæðum.

Þrír milljarðar til leik- og grunnskóla

Alls er áætlað að 3,15 milljarðar króna fari í viðhald fasteigna Reykjavíkurborgar á þessu ári.

Þar af fer stærsti hlutinn í grunn- og leikskóla, eða tæplega 2,1 milljarður króna.  Enn fremur fara 360 milljónir króna í viðhald grunn- og leikskólalóða. Sem hluti af sérstaka atvinnuátakinu renna 620 milljónir til viðbótar til viðhalds leik- og grunnskóla. Samtals fara því rúmlega 3 milljarðar í þennan málaflokk.

Einnig rennur hálfur milljarður í íþróttamál og 120 milljónir í velferðarmál.

Lögð er áhersla á viðhald gatna- og gönguleiða á árinu en í það fara 823 milljónir króna. Einnig fara 328 milljónir í viðhald leikvalla og opinna svæða.

Verkefnin eru aðallega smærri viðhaldsverkefni eins og málun, gluggaviðgerðir og svo framvegis, að sögn Ámunda V. Brynjólfssonar, skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg. „Þetta er hefðbundið almennt viðhald sem er þarna undir,“ útskýrir hann en inni í þessari tölu eru því ekki framkvæmdir sem teljast til meiriháttar endurbóta.

Verið að bæta í

Hvað viðhaldsverkefni atvinnuátaksins  varðar segir hann: „Það er bara verið að bæta í,“ segir hann en um er að ræða að mestu hefðbundin viðhaldsverkefni. „Áherslan er fyrst og fremst á að þetta séu mannaflsfrek verkefni; að þau búi til atvinnu.“

Af þessum milljarði króna sem fer í sérstakt viðhald til atvinnuátaks vegna COVID-19 þá fer stærsta upphæðin í grunnskóla eða 370 milljónir króna. Upphæð vegna viðhalds við fasteignir leikskóla nemur 250 milljónum króna, og 230 milljónir fara í fasteignir ÍTR. Einnig fara 120 milljónir í viðhald við götur og gönguleiðir og 30 milljónir í vinnu við aðgengi á biðstöðvum Strætó.

Hér er hægt að lesa nánari útlistun á áætluðum viðhaldsframkvæmdum Reykjavíkurborgar árið 2020.