50 milljónir veittar til þróunar- og nýsköpunar í skólum og frístundastarfi

""

Tólf verkefni hafa hlotið styrk úr þróunar- og nýsköpunarsjóði skóla- og frístundaráðs – Látum Draumana rætast (B hluta), fyrir skólaárið 2022-2023.

Úr vöndu að velja því til úthlutunar voru 50 milljónir króna en alls bárust 21 umsókn, samtals að upphæð 143,3 milljón króna. Styrkirnir tengjast innleiðingu menntastefnu Reykjavíkurborgar.

Eftirfarandi verkefni fá styrki:

Verkefnið Saman komumst við lengra, grunnskólaverkefni í sameinuðu hverfi Austurmiðstöðvar, fær styrk til að vinna að eflingu og samræmingu innra mats og umbótastarfi í öllum fimmtán grunnskólum hverfisins. - 5 milljónir króna.

Verkefnið Þátttaka barna í leikskólastarfi, samstarfsverkefni leikskólanna Engjaborgar, Funaborgar, Hólaborgar og Sunnufoldar og Háskóla Íslands fá styrk til að þróa hlutverk kennara og annars starfsfólks í að stuðla að leik sem megin námsleið barna. Nám þeirra er skráð og metið nám með kerfisbundnum hætti með þátttöku barnanna, foreldra og starfsfólks. Þetta verkefni hefur ekki fengið styrk áður. - 4 milljónir króna.

Leikskólarnir Grandaborg, Gullborg og Ægisborg í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fá styrk vegna verkefnisins Leikur, nám og gleði. Í verkefninu verður lögð áhersla á að styrkja starfsfólk leikskólanna með fræðslu og umræðum um hvernig hægt er að leggja frekari áherslu á leik sem megin námsleið barna, virða skoðanir þeirra og áhrifamátt við skipulagningu leikskólastarfs og mæta þörfum yngstu barnanna. Verkefnið hefur ekki fengið styrk áður. - 4 milljónir króna.

Leikskólarnir Ævintýraborg Eggertsgötu, Gullborg, Laugasól, Vinagerði, Ævintýraborg Nauthólsvegi í samstarfi við UNICEF og Háskóla Íslands fá styrk vegna verkefnisins Réttindi barna á Íslandi. Markmið verkefnisins er að innleiða ákvæði Barnasáttmálans á markvissan hátt í starfshætti fimm leikskóla í samstarfi við UNICEF og Menntavísindasvið HÍ. - 4 milljónir króna.

Allir leikskólar í Austurmiðstöð í samstarfi við HÍ fái styrk vegna verkefnisins Innra mat í leikskóla í Austri – samtal og ígrundun. Markmið þessa eins árs verkefnis er að mynda lærdómssamfélag stjórnenda leikskóla með það fyrir augum að fræða þá og styrkja í að innleiða reglulegt, kerfisbundið innra mat á leikskólastarfi með þátttöku starfsmanna, barna og foreldra. Tilgangurinn er að skapa vettvang fyrir samtal um helstu þætti innra mats. Verkefnið hefur ekki fengið styrk áður. - 4 milljónir króna.

Frístundamiðstöðin Tjörnin í samstarfi við Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna 78 og Tjarnarinnar, ráðgjafaþroskaþjálfa og Jafnréttisskóla Reykjavíkur og HÍ, deild menntunar og margbreytileika fái styrk vegna verkefnisins Kynfræðsluspjöld. Markmið er að búa til kynfræðsluspjöld og handbók sem starfsfólk á vettvangi getur nýtt sér til að fræða unglinga um kynheilbrigði. - 4 milljónir króna.

Verkefnið Vertu velkomin í hverfið okkar – Viltu tala íslensku við mig? fái styrk. Verkefnið er samstarfsverkefni allra grunnskólanna í Grafarvogi og Kjalarnesi og unnið í samstarfi við HÍ og Íslenskuþorpið. Þetta verkefni fékk styrki skólaárin 2020–2021 og 2021–2022 og styrk til að ljúka verkefninu og ganga frá niðurstöðum, upplýsingum og leiðbeiningum í myndböndum sem munu nýtast öðrum. - 4 milljónir króna.

Verkefnið Innleiðing á Gagnvirka samstarfslíkaninu í grunnskólum í Breiðholti fær styrk. Það er samstarfsverkefni allra grunnskólanna í Breiðholti, skóla- og frístundaþjónustu í hverfinu, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Jigsaw Learning. Verkefnið hefur ekki fengið styrk áður. - 4 milljónir króna.

Leikskólarnir Grandaborg, Kvistaborg, Garðaborg og Austurborg í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fær styrk vegna verkefnisins Námssamfélag starfsmanna leikskóla undir leiðsögn stærðfræðileiðtoga. Markmiðið er að styrkja námssamfélag leikskólakennara og annarra starfsmanna í leikskólunum með það að leiðarljósi að þeir styrki sig sem fagmenn í að greina hugmyndir ungra barna um stærðfræði og læri að styðja við þær í leikskólanum. Verkefnið hefur ekki fengið styrk áður. - 4 milljónir króna.

Verkefnið Öll sem eitt, sem er samstarfsverkefni allra frístundamiðstöðva og félagsmiðstöðva, Samtakanna 78, fagskrifstofu frístundamála, Þekkingarmiðstöðvar í málefnum fatlaðra barna og Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar fær styrk. Verkefnið hefur einu sinni áður fengið styrk, skólaárið 2021–2022. - 4 milljónir króna.

Félagsmiðstöðin Vígyn í samstarfi við frístundamiðstöðina Brúnna, félagsmiðstöðvarnar Fjörgyn, Sigyn, Fellið, Plútó, Fókus, Holtið, Ársel og Höllina, Menntavísindasvið HÍ og foreldrafélag Víkurskóla fær styrk vegna verkefnisins Heildræn fræðslunálgun í félagsmiðstöðvastarfi. Í því felst að að búa til umgjörð utan um það mikla fræðslustarf til barna og fjölskyldna þeirra sem félagsmiðstöðvum er falið að sinna. Sífellt koma upp nýjar áskoranir í unglingahópum sem er nauðsynlegt að taka vel á, t.d. með fræðslu. Verkefnið hefur ekki fengið styrk áður. - 4 milljónir króna.

Kringlumýri, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og leikskólar í Laugarnesi og skólahljómsveit Austurbæjar fá styrk vegna verkefnisins Öll í sama liði. Verkefnið miðar að því að vinna með líðan barna og unglinga í hverfinu, en skv. niðurstöðum R&G hefur vanlíðan barna og unglinga aukist síðustu ár. Markmið verkefnisins er að samstilla alla þá sem starfa með börnum og unglingum og foreldrum í Laugardalnum með það að markmiði að gera hverfið enn betra fyrir börnin og unglingana. - 5 milljónir króna.