48 þúsund börn heimsækja menningarstofnanir Reykjavíkur

Mannlíf

""

Úrval fræðslu- og menningarviðburða fyrir börn hefur aldrei verið meira á menningarstofnunum Reykjavíkurborgar en nú. Árlega sækja um 48.000 leik- og grunnskólabörn Borgarbókasafnið, Borgarsögusafnið og Listasafn Reykjavíkur auk fleiri stofnana ár hvert.

Borgarbókasafnið er með fjölda tilboða í öllum sex menningarhúsum sínum sem sniðin eru að ólíkum aldurshópum s.s. heimsókn Æringja í leikskóla, sögustundir fyrir leikskólabörn og yngstu börn grunnskóla, tilraunaverkstæði og tækniklúbb fyrir 9 – 12 ára, OKið fyrir 12-16 ára og vinnustofur í teiknimyndagerð, svo að eitthvað sé nefnt. Um 15.000 skólanemar nýta tilboð Borgarbókasafnsins árlega í skipulögðum heimsóknum og eru þá ótaldir allir viðburðirnir sem eru fyrir börn og fjölskyldur og eru að sjálfsögðu ókeypis.

Sýningarstaðir Borgarsögusafns eru Árbæjarsafn, Landnámssýningin, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafnið í Reykjavík og Viðey. Samanlagt eru þessir sýningarstaðir með rúmlega 30 fræðslutilboð fyrir leik- og grunnskóla, enda uppundir 20.000 skólanemar sem sækja söfnin heim árlega í skipulögðum heimsóknum. Í þeim má fræðast um þorskinn á Sjóminjasafninu, að lesa í mynd á Ljósmyndasafninu, allt um landnámið á Landnámssýningunni og hvernig við Íslendingar þreyðum þorrann – á Árbæjarsafni.

Listasafn Reykjavíkur tekur á móti um 13.000 skólanemum árlega í safnhúsunum þremur, Kjarvalsstöðum, Ásmundarsafni og Hafnarhúsi auk þess sem tekið er á móti grunnskólanemum í Perlufestinni í Hljómskálagarði, höggmyndagarði tileinkuðum list kvenna. Allar sýningar safnsins  gefa tilefni til vinnu með nemendum,  auk þeirra reglulegu heimsókna sem ákveðnum árgöngum er boðið upp á. Þannig eiga öll reykvísk grunnskólabörn kost á að upplifa þrjá lykilmenn í íslenskri listasögu, þá Kjarval, Ásmund Sveinsson og Erró auk margbreytilegra sýninga á verkum listamanna samtímans. Listasafn Reykjavíkur býður grunnskólum einnig að fá til sín flökkusýningar í svokölluðum Flakkara ásamt fræðslupakka. Í öllum safnhúsum eru reglulega haldnar listsmiðjur fyrir börn undir yfirskriftinni Leiktu að list.

Þá eru ótaldir skólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, leikhústilboð Borgarleikhússins, kvikmyndafræðslan sem Bíó Paradís býður börnum og unglingum upp á.Barnamenningarhátíðin er haldin ár hvert þar sem framlag barna til menningar borgarinnar fær sérstaka athygli menning fyrir börn, með börnum og eftir börn er allsstaðar í forgrunni.