450 ný sumarstörf fyrir námsmenn 18 ára og eldri

Atvinnumál

""

Borgarráð samþykkti í lok apríl að bæta 450 sumarstörfum til viðbótar við þau 822 störf sem þegar hafa verið auglýst.

Störfin sem nú eru auglýst eru fyrir nemendur, það er að segja einstaklinga sem eru í námi, á milli anna, eða skráðir í nám næsta haust.

Ráðningartímabilið nær yfir tvo mánuði yfir sumartímann en umsóknarfrestur rennur út  25.maí næstkomandi.

Störfin eru bæði fjölbreytt og skapandi og má finna á öllum sviðum Reykjavíkurborgar. 

Reykjavíkurborg kallaði eftir hugmyndum að störfum fyrir námsmenn frá öllum sviðum borgarinnar og afraksturinn varð sá að Reykjavíkurborg ætlar að ráða 450 námsmenn til viðbótar til að sinna fjölbreyttum verkefnum á sviði upplýsingatækni, velferðar-, umhverfis-,  íþrótta-, fræðslu-, frístunda- og menningarmála.  Dæmi um verkefni og störf eru listhópar, hópar sem glæða miðborgina lífi, vinna við heilbrigðiseftirlit, skráningu safnmuna, hreyfing fyrir eldri borgara, menningarmiðlun, skapandi frístundasmiðjur, náttúruliðar eða hópur um félagslega nýsköpun og  upplýsingagreind.

Nemendur af öllum stigum náms, 18 ára og eldri eru hvattir til að kynna sér störfin á heimasíðu borgarinnar og sækja um fjölbreytt störf hjá Reykjavíkurborg.

Þessi aukning í fjölda sumarstarfa er liður í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar vegna COVID-19. Verkefnið er unnið í samvinnu ríkisins og Reykjavíkurborgar.

Kynntu þér betur fjölbreytt sumarstörf