200 milljónir í umferðaröryggismál

Framkvæmdir Samgöngur

bílar og umferðarljós

Farið verður í ýmsar framkvæmdir í umferðaröryggismálum víða um borgina samkvæmt umferðaröryggisáætlun. Á meðal þess sem verður gert eru nýjar gangbrautir og upphækkanir fyrir gangandi, gatnamót verða lagfærð, hraðakoddar settir upp og lýsing verður bætt. Borgarráð hefur nú heimilað umhverfis- og skipulagssviði bjóða út framkvæmdir vegna verkefna umferðaröryggisaðgerða 2022 og er áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar 200 milljónir króna.

Átján aðgerðir

Framkvæmt verður á þessu og næsta ári. Alls eru aðgerðirnar átján og eru eftirfarandi:

  1. Ný gangbraut með upphækkun og gangbrautarlýsingu yfir Hofsvallagötu til móts við Vesturbæjarlaug. Aðkoma óvarinna vegfarenda framhjá bílastæðum Vesturbæjarlaugar bætt. Eitt hliðarstæði meðfram Hofsvallagötu fjarlægt og eitt stæði merkt fyrir hreyfihamlaða.
     
  2. Ný gangbraut, gangbrautarlýsing og gatnamótalagfæringar fyrir Holtsgötu til móts við Framnesveg.
     
  3. Ný gangbraut, gangbrautarlýsing og gatnamótalagfæringar yfir Öldugötu til móts við Framnesveg.
     
  4. Upphækkanir núverandi gangbrauta yfir Bólstaðarhlíð og Skipholt við Háteigsveg. Gangbrautarlýsing og gatnamótalagfæringar á Bólstaðarhlíð til mót við Háteigsveg.
     
  5. Ný gangbraut, upphækkun gangbrautarlýsing og lagfæringar á sjónlengdum yfir Langholtsveg til móts við Langholtsveg 124.
     
  6. Fallvarnir við stíg meðfram Miklubraut við göngubrú til móts við Skeifuna.
     
  7. Hraðalækkandi kodda og lagfæring gangbrautarlýsingar á núverandi gangbraut yfir Bústaðaveg til móts við Landspítalann í Fossvogi.
     
  8. Fallvarnir við stíg meðfram Breiðholtsbraut til móts við Mjóddina, Árskóga.
     
  9. Færsla á þverun við Arnarbakka rétt austan Stekkjarbakka.
     
  10. Ný gangbraut með upphækkun og gangbrautarlýsingu yfir Jaðarsel til móts við Seljaskóla.
     
  11. Ný gangbraut með upphækkun og gangbrautarlýsingu yfir Norðurhóla til móts við Vesturhóla.
     
  12. Ný gangbraut með upphækkun og gangbrautarlýsingu yfir Krummahóla til móts við Vesturhóla.
     
  13. Lagfæringar gönguþverunar yfir Krókavað.
     
  14. Ný gangbraut með upphækkun og gangbrautarlýsingu yfir Norðlingabraut til móts við göngubrú yfir Breiðholtsbraut. Hraðalækkandi alda yfir Norðlingabraut til móts við göngubrú yfir Breiðholtsbraut.
     
  15. Hraðalækkandi koddar og bætt lýsing við gönguþverun yfir Borgarveg norðan Gufuneskirkjugarðs. Minniháttar lagfæringar á biðstöð Strætó.
     
  16. Lagfæring aðkomu stíga við undirgöng undir Víkurveg til móts við Egilshöll.
     
  17. Hraðalækkandi koddar ásamt bættri lýsingu og lagfæringu biðsvæða við Lambhagaveg norðan Reynisvatnsvegar.
     
  18. Ný gangbraut yfir Kollagrund, til móts við Klébergsskóla.