20. tbl. Borgarsýnar komið út

Framkvæmdir Samgöngur

""

Fjórða tölublað Borgarsýnar árið 2017 kom út í vikunni og þar er m.a. gerð grein fyrir hugmyndasamkeppni um Kringlusvæðið, útisundlaug við Sundhöll Reykjavíkur og nýju deiliskipulagi fyrir Úlfarsárdal og Leirtjörn.

Borgarsýn er upplýsingarit umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar þar sem greint er frá verkefnum sem eru í deiglunni.

Hjalti J. Guðmundsson skrifstofustjóri skrifstofu reksturs og umhirðu segir frá vetrarþjónustu í þessu tölublaði, þar sem markmiðið er að fyrst og fremst að tryggja greiðar leiðir með snjóhreinsun, snjómokstri og hálkueyðingu. Fjölfarnar safngötur njóta forgangs og er miðað við að strætóleiðir séu færar fyrir kl. 7. að morgni.

Skerjafjörður, Úlfarsárdalur

ASK arkitektar, Landslag og Efla voru hlutskörpust í hugmyndaleit um framtíðaruppbyggingu í Nýja Skerjafirði. Græn tenging frá Skerjafirði að Reykjavíkurtjörn er mikilvæg fyrir byggðina. Gert er ráð fyrir að yfirbragð beltisins verði sem náttúrulegast í anda Vatnsmýrarinnar, en tengist neti leikvalla og áhugaverðra staða til að ferðast um og njóta útivistar. 

Nýtt deiliskipulag fyrir Úlfarsárdal er til umfjöllunar í blaðinu, en skipulagið gerir ráð fyrir þéttingu núverandi hverfis og nýrri uppbyggingu við Leirtjörn. Með endurskoðun á deiliskipulagi Úlfarsárdals er verið að stækka hverfið til norðurs í átt að Leirtjörn. Segja má að Leirtjarnarsvæðið sé anddyri í átt að útivistarperlu Reykvíkinga, Úlfarsfelli og því vel við hæfi að hverfið tengi hið manngerða umhverfi við náttúruna.

Sundhöllin

Viðbyggingin við Sundhöllina hefur tekist einstaklega vel og er umgjörðin öll hin glæsilegasta. Vistvænni hönnun byggingarinnar er vottuð af BREEAM, bresku rannsóknarstofnuninni í byggingariðnaði, og er fyrsta framkvæmd á vegum Reykjavíkurborgar sem hlýtur þá vottun.

Af öðru efni í þessu tölublaði má nefna greinar um Hverfisskipulag, hleðslustöðvar fyrir rafbíla og þátttöku Reykjavíkurborgar í alþjóðlegri samkeppni um sjálfbæra uppbyggingu á vegum borgarsamtakanna C40 sem eru samtök yfir 90 stærstu borga veraldar. Þá má lesa grein um framtíðaruppbyggingu Kringlusvæðisins og Reykjavík sem jólaborg.

Tengill

Borgarsýn 20. tbl. 2017