150 milljarða fjárfesting í miðborginni á undanförnum árum

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Mikill áhugi var fyrir fyrirlestrum á opnum fundi um athafnaborgina Reykjavík sem  haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í boði borgarstjóra á föstudag. Tjarnarsalurinn var þéttsetinn og auk þess sem margir nýttu tæknina og fylgdust með streymi frá fundinum.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs sagði frá samstarfi borgarinnar við atvinnulífið, en ríkur vilji væri til að efla það. „ Við viljum formfesta samtalið við atvinnulífið með reglulegum vettvangi þar sem fulltrúar borgarinnar og atvinnulífsins skiptast á skoðunum og vinna að betri samskiptum og samvinnu,“ kom fram í kynningu Þórdísar Lóu.

150 milljarða fjárfesting í miðborg  

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór yfir uppbygginguna sem blasir við um alla borg. „Við erum á mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar. Bara fjárfestingar sem hafa átt sér stað á undanförnum árum í miðborginni eru ekki undir 150 milljörðum,“ sagði Dagur.  Reykjavíkurborg mun á næstu árum fjárfesta fyrir um 196 milljarða króna og sagði hann mikilvægt að Reykjavíkurborg og ríkið ættu gott samstarf. Þá fagnaði Dagur því að stærsta frumkvöðlasetur landsins væri að rísa í Vatnsmýri, kvikmyndaþorpið í Gufunesi væri að verða að verulauka auk fjölda áhugaverðra og fjölbreyttra verkefna um alla borg og atvinnulífið væri að verða fjölbreyttara. „Við eigum að halda dampi svo það verði ekki neikvæð þróun,“ sagði Dagur.  „Þess vegna eru skilaboðin hér í dag þau að nú er góður tími til að fjárfesta“.

Fjölbreytt atvinnu- og verslunarhúsnæði við Austurbakka   

Landsbankinn mun aðeins nýta hluta af nýju húsnæði sem byggt verður á Austurbakka. Bankinn mun nýta um 10.000 m² í nýju húsi, um 60% af flatarmáli hússins, en selja eða leigja frá sér um 6.500 m² sem munu nýtast fyrir verslun og aðra þjónustu. Þetta kom fram í kynningu Halldóru Vífilsdóttur arkitekt og verkefnisstjóra Landsbankans. „Markmiðið með flutningi Landsbankans í nýtt hús við Austurbakka í Reykjavík er að ná fram hagræðingu, auka skilvirkni og mæta kröfum um breytt vinnulag í fjármálaþjónustu,“ sagði Halldóra.  

Hugmyndahús Grósku á góðri leið   

Gróska verður suðupottur hugmynda, en framkvæmdir eru á lokametrunum og verður húsið fullbúið í lok ársins og komið í fulla notkun 2020.  Árni Geir Magnússon, framkvæmdastjóri Grósku sagði frá starfseminni og sýndi myndir. Mikilvægt væri að huga að umhverfisþættinum bæði vegna eðli starfseminnar og staðsetningarinnar.

Hönnun sjúkrahúss snýst um fólk    

Ögmundur Skarphéðinsson, arkitekt sagði frá hönnun nýs meðferðarkjarna Landspítala Háskólasjúkrahúss.  Hann sagði að samvinna væri hornsteinn í þessu verkefni sem væri það stærsta á Íslandi til þessa. Bæði væri horft til þeirrar þjónustu sem ætti að veita en ekki síst til þess mikla fjölda sem þarna vinnur.  Við hönnun væri sérstaklega hugað að flæði fólks og verka.

„Verkefni sem þessu líkur aldrei,“ sagði Ögmundur og hvatti til að strax yrði horft til næstu áfanga.

Hönnun framtíðar    

Ragna M. Guðmundsdóttir, stofnandi Mstudio – Innovationlab fjallaði um hönnunardrifna nýsköpun sem hún segir að sé lykill að samkeppnisforskoti framtíðarinnar.  Hún benti á mörg tækifæri sem má þróa í borgarumhverfinu allt frá því að bjóða fólki til þátttöku í sjálfbærri ræktun til þess að fá heimsendingar eða í markaðskassa á næsta horni.

„Markmið okkar er að hjálpa fólki og fyrirtækjum að nýta sér þessi tækifæri,“ sagði Ragna.

Staða og framtíðarhorfur verslunar     

Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs Verslunarinnar fór yfir greiningu á stöðu og framtíðarþróun verslunar í Reykjavík. Velta sérvöruverslunar í miðborginni er nærri 8 milljarðar árlega og er það án verslunarkeðja sem skráðar eru annarsstaðar í gögnum RSK.

Greiningar sýna að  helmingur verslunar eru með netverslun og hann sýndi einnig greiningartól sem er í vinnslu og ekki enn opið, en verður fljótlega.

Upptaka frá fundi og kynningarglærur   

Upptaka frá fundinum er á vef Reykjavíkurborgar reykjavik.is/athafnaborgin  og þar eru einnig kynningarglærur aðgengilegar.