Ungmennaráð | Reykjavíkurborg
  • Frá fundi Reykjavíkurráðs ungmenna með borgarstjórn
Haustið 2001 voru sett á laggirnar ungmennaráð í öllum hverfum Reykjavíkurborgar. Starfstími hvers ráðs er eitt ár í senn og hefst starfsárið 1. október. Ungmennaráðin hafa með sér samráðs-og samstarfsvettvang, Reykjavíkurráð ungmenna.

Tilgangur

Tilgangur ungmennaráðanna er að þeir sem eru yngri en 18 ára geti tekið virkan þátt og haft áhrif í samfélaginu þó að þeir hafi ekki kosningarétt. Starfsemi ungmennaráða gefur unglingum tækifæri til að láta í sér heyra og vinna að málefnum ungs fólks.

Markmið

- Að skapa vettvang og leiðir fyrir þá sem eru yngri en 18 ára til að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við rétta aðila.
- Að veita fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og vettvang til að þjálfa sig í þeim.

Skipurit

Nemendaráð allra grunn-og framhaldsskóla tilnefna tvo fulltrúa, 13-18 ára, til að starfa í ungmennaráði í hverfinu. Ungmennaráð hverfisins tilnefnir tvo fulltrúa til setu í Reykjavíkurráði ungmenna. Ungmennaráðin geta jafnframt óskað eftir fleiri fulltrúum til starfa í ráðunum. Ungmennaráðin haga starfi sínu eftir því sem þau telja best til að ná fram markmiðum sínum hverju sinni.

Kynnt fyrir unglingum

Verkefnið er kynnt fyrir nemendaráðum skólanna á hverju hausti, ýmist af fulltrúum í ungmennaráði eða starfsmanni ráðsins. Jafnframt er verkefnið kynnt eftir aðstæðum og þörfum í hverju hverfi fyrir sig.

Starfsmaður ráðsins

Starfsmaður ráðsins er jafnan starfsmaður borgarinnar, ýmist frístundamiðstöðvar eða þjónustumiðstöðvar viðkomandi hverfis. Í flestum hverfum starfa tveir starfsmenn með ungmennaráði, einn frá hvorri miðstöð. Starfsmenn ungmennaráðs eru fulltrúum í ungmennaráðum til halds og trausts og því með reynslu af starfi með ungu fólki, sem og þekkingu á lýðræði og uppbyggingu Reykjavíkurborgar.

Sjá handbók ungmennaráða.

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

5 + 3 =