Félagsfærni og líðan | Reykjavíkurborg

Félagsfærni og líðan

Árekstrar koma reglulega upp í samskiptum barna. Það er ósköp eðlilegt, börn eru börn, þau eru að læra hvað má og hvað má ekki, og þau eru læra hvernig á að fara að því að eiga góð samskipti. Meirihluti samskiptavandans er kannski minni háttar og leysist auðveldlega, án þess að hafa varanleg áhrif á börnin, leysist jafnvel án sérstakra inngripa fullorðinna. Hins vegar er alveg ljóst að samskiptavandi barna verður oft alvarlegur og erfiður viðureignar. Því er full ástæða til þess að huga að því hvað við getum gert betur. Benedikt Bragi Sigurðursson, sálfræðingur hefur tekið saman nokkur góð ráð. 

 

 • ""
 • ""

Hér eru þrjú atriði sem foreldrar mega íhuga:

• að grípa fyrr inn í samskiptavanda,
• að grípa inn í með réttum hætti,
• að kenna börnum félagsfærni með markvissum hætti.

Að grípa fyrr inn í er atriði sem við þurfum ekki að dvelja lengi við, ég einfaldlega hvet foreldra til þess að bregðast fljótt við ef alvarlegur samskiptavandi kemur upp. Oft verður samskiptavandi í bekkjum erfiðari og erfiðari yfir langt tímabil. Það er auðveldara að fást við vandann ef við grípum snemma inn í. Best er þó að byrja að tala saman strax í upphafi skólagöngu. Ég kem að því aftur.

Að ræða um hvernig gripið er inn í með réttum hætti, og hvað er rangt í þeim efnum, getur kannski verið viðkvæmt umræðuefni. Það þarf samt sem áður að ræða.  Ég þekki mörg dæmi um afar ranga nálgun foreldra, sem er því miður oft til þess fallin að gera samskiptavanda barnanna verri. Yfirleitt eru foreldrar að reyna að hjálpa og gengur gott eitt til, það tekst bara ekki alltaf. Svo dæmi sé tekið held ég að eftirfarandi sé ekki til þess fallið að hjálpa krökkunum:

• Að mynda foreldrahópa innan bekkja þar sem sumir foreldrar fá ekki að vera með. Ég hef heyrt fólk segja eitthvað á þessa leið: „það þýðir ekkert að tala við Jón & Gunnu, þau eru bara ekki hæfir foreldrar“ eða, „það er ekkert verið að gera á þessu heimili“.
• Að skamma börn annarra í stað þess að ræða við foreldra þeirra.
• Að banna börnum að leika við suma en ekki aðra.
• Að senda pósta milli foreldra (sem sumir fá og sumir ekki), þar sem talað er illa um ákveðna foreldra, ákveðin börn, eða kennara bekkjarins.
• Að sjá aldrei neitt sem betur mætti fara hjá sjálfum sér og eigin barni, en kenna ávallt öðrum um.

Hér kemur stuttur listi yfir atriði sem ég tel gott að fara eftir þegar félagslegir erfiðleikar koma upp í bekknum:

• Látum okkur málið varða og tökum þátt, ræðum málin.  Ekki sitja hjá.  Það er á okkar ábyrgð að hjálpa börnum að leysa úr ágreiningi.
• Ræðum við alla sem málið varðar.  Það getur verið erfitt, og ólíkar skoðanir mætast, en ef foreldrar geta ekki leyst málin, þá bitnar það á börnunum.
• Verum uppbyggileg og jákvæð.  Forðumst að tala um sökudólga, eða að eitthvað sé einhverjum að kenna. Sérstaklega þegar við erum að ræða um unga krakka. Skoðum fyrst hvort við getum hjálpað til og leyst málin.
• Skoðum okkar eigið barn með augum annarra.  Við gerum barninu okkar engan greiða með því að verja það sífellt, með því að finna sökudólga í öðrum o.s.frv.
• Höldum umsjónarkennara bekkjarins upplýstum.  Kennari hefur yfirsýn og er í lykilstöðu til að leiða mál til lykta.
 

Félagsfærni barna

Að kenna börnum félagsfærni er eitthvað sem gleymist kannski oft á tíðum. Það er að minnsta kosti mín tilfinning.
Hvað er átt við með félagsfærni barna?  Skoðum nokkur dæmi:

• setja sig í spor annarra;
• geta fyrirgefið;
• skilja af hverju beðist er fyrirgefningar;
• deila með sér;
• vilja fara í leik vegna þess að aðrir vilja þann leik (ekki bara leika það sem maður vill sjálf(ur));
• hlusta;
• grípa ekki fram í;
• hjálpa öðrum;
• uppnefna ekki;
• stríða ekki;
• taka ekki hluti í leyfisleysi;
• slá ekki frá sér;
• halda loforð sín;
• kunna að hætta að rífast, að gefa eftir, að sættast;
• axla ábyrgð, að sjá eigin sök, að viðurkenna.

Félagsfærni lærist að einhverju leyti af sjálfu sér. Börn leika sér saman, byrja að rífast, verða ósátt, og sum mál leysast. Börn læra af reynslunni, yfirfæra þekkinguna, skilja hvað gott er að gera næst.  Börn læra þetta hins vegar misjafnlega vel og misjafnlega hratt.
Við getum hjálpað til. Við getum flýtt fyrir, dýpkað þekkinguna, miðlað af reynslu okkar og þroska. Tökum dæmi úr okkar æsku, segjum (félagsfærni)sögur, förum í leiki, leikum með, spjöllum á kvöldin.
Félagsfærni er mikilvæg! Gríðarlega mikilvæg. Félagsfærni hjálpar börnum að skilja önnur börn, hjálpar þeim að eignast vini, hjálpar þeim í samskiptum við fullorðna.  Félagsfærni hjálpar unglingum að standa á sínu, að fylgja ekki hópnum í blindni, að hafa kjark og kunnáttu til að eignast nýja vini, að tala frammi fyrir öðrum. Félagsfærni hjálpar fullorðnum að sækja um vinnu, finna maka, eignast nýja vini, ala upp börnin sín.  Félagsfærni getur verið forvörn gegn þunglyndi, bætir líðan okkar og gerir okkur kleift að aðlagast ýmsum aðstæðum hraðar.

Félagslegur vandi getur auðvitað valdið vanlíðan hjá börnum.  Ég vil því að lokum nefna nokkur atriði sem varða kvíða og þunglyndi.  Þetta er örstutt samantekt svo auðveldara verði að þekkja einkennin og bregðast við.

Kvíði

Kvíði getur birst í mörgum myndum. Það getur til að mynda verið ótti við eitthvað sérstakt, svo sem köngulær eða annað í þeim dúr.  Kvíði getur birst í því að óttast viðhorf annarra, óttast að tala fyrir framan fólk, eða almennt óttast að umgangast fólk.  Kvíði getur birst í því að óttast að missa einhvern eða vilja ekki fara frá einhverjum, oft óttast börn að missa foreldra, vilja hafa þau hjá sér. Kvíði getur birst í því að finnast maður missa stjórn, að óttast að maður sé að kafna, að hjartað springi, að það líði yfir mann eða álíka, og svo ótti við að verða fyrir þessu aftur síðar.  Kvíði getur birst í því að hafa almennt miklar áhyggjur af hinu og þessu, en þó ekki endilega einhverju sérstöku.
Einkenni kvíða geta birst í hegðun. Hegðun getur þá til að mynda falist í að forða sér undan einhverju. Mæta ekki í sund. Rétta ekki upp hönd. Spyrja ekki eftir vini, vilja ekki gista hjá vini. Ganga ekki inn í kennslustofu án foreldris. Einkenni geta birst í líkamlegum einkennum og umkvörtunum, til að mynda í magaverkjum, höfuðverkjum o.fl. Neikvæðar hugsanir eru einkennandi fyrir kvíða, sem barnið tjáir oft, svo sem: „ég vil ekki mæta of seint í skólann eða rétta upp hönd því þá munu allir horfa á mig, ég er ekki örugg(ur) nema pabbi gangi með mér alla leið inn í stofu, ég vil ekki gista hjá vini því eitthvað slæmt mun örugglega koma fyrir“…o.s.frv.  Eitt einkenni kvíða er svo auðvitað vanlíðan, sem barnið lýsir í sumum tilfellum, eða birtist í öðrum einkennum, þ.e. hegðun, hugsun eða líkamlegum einkennum.

Einn algengasti vandinn tengdur kvíða sem birtist í mínu starfi er það þegar barn forðast aðstæður og aðrir í kringum það ýta undir þá forðun.  Til að mynda getur verið um að ræða barn sem vill ekki mæta í skólann, grætur á kvöldin og morgnana (oft mest á sunnudagskvöldum), kvartar undan magaverkjum og lýsir ýmsum áhyggjum.  Þá getur verið mikilvægt að hjálpa barninu að breyta þessari hegðun og mæta í skólann, í stað þess að leyfa barninu að vera heima. Ýmis viðbrögð foreldra geta aukið á kvíða barns og því mikilvægt að huga að því hvað gert er.  

Þunglyndi

Þunglyndi er alvarlegt ástand sem verður að taka á og vinna með, eins fljótt og kostur er. Algengi og alvarleiki fer vaxandi á heimsvísu, og greiningaraldur fer lækkandi. Ástæður þunglyndis eru oft, að því er virðist, félagslegar. Þess vegna getur verið svo mikilvægt að huga að farsælu félagslífi og góðri félagsfærni. Fleiri konur en karlar verða fyrir þunglyndi.

Á meðal einkenna sem við ættum að vera vakandi fyrir eru:

 • depurð;
 • pirringur;
 • breytingar á mataræði/þyngd;
 • breytingar á svefni;
 • orkuleysi;
 • áhugaleysi;
 • skortur á einbeitingu;
 • hugsanir og tal um dauða og sjálfsvíg;
 • þegar barnið upplifir sektarkennd og finnst það vera einskis virði;
 • endurteknar, neikvæðar hugsanir, neikvæð sjálfsmynd.

Í tilfellum þunglyndis eru ýmsir þættir sem gott er að huga að. Til að mynda getur verið gagnlegt að skoða hugsanir og athuga leiðir til að breyta þeim og að leggja áherslu á hið jákvæða í lífinu. Gott er að skoða hvort samskipti við þá sem næst standa viðkomandi gangi erfiðlega, reyna að laga samskiptin og að skoða viðhorf sem eru skaðleg samskiptum og félagslífi. Einnig að hugsa um það hvernig viðkomandi leysir úr vandamálum og hvort tekist er á við vandamál yfir höfuð.  Mikilvægt er að reyna að auka virkni, bæta félagslíf, auka samveru með fjölskyldunni og að bæta félagsfærni. Þá er gott, samhliða þessu, að huga að svefni, mataræði, slökun og hreyfingu.

Ef grunur um þunglyndi eða kvíða vaknar er rétt að nefna það við einhvern og fá góð ráð, svo sem hjá heimilislækni, hjúkrunarfræðingi í skóla, námsráðgjafa eða skólasálfræðingi. Ef þunglyndi eða kvíði greinist er rétt að huga að meðferð. Meðferðir sem hafa gagnast eru meðal annars hugræn atferlismeðferð og lyfjameðferð.

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

11 + 0 =