Mannréttindaráð | City of Reykjavík

Mannréttindaráð

Formaður mannréttindaráðs er Elín Oddný Sigurðardóttir.

Mannréttindaráð starfar í umboði borgarráðs skv. samþykkt fyrir ráðið, samþykktri í borgarstjórn 18. desember 2007, samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013 og eftir því sem lög mæla fyrir um, sbr. einnig heimild í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011.

Mannréttindaráð mótar stefnu í mannréttindamálum, tekur ákvarðanir og gerir tillögur til borgarráðs um verksvið þess. Jafnframt hefur ráðið eftirlit með rekstri mannréttindaskrifstofu borgarinnar og að samþykktum og stefnumörkun þess sé fylgt.

Mannréttindaráð fer með verkefni jafnréttisnefndar skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 26. febrúar 2008 og önnur verkefni á sviði mannréttindamála samkvæmt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og stuðlar þannig að bættum mannréttindum borgarbúa.

Ráðið gerir tillögur til borgarráðs um mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og ber ábyrgð á að henni sé framfylgt, er í fyrirsvari af borgarinnar hálfu á sviði mannréttindamála og fylgist með verkefnum fagsviða sem tengjast mannréttindamálum. Jafnframt er það fagsviðum til samráðs og ráðgjafar um forgangsröðun verkefna á sviði mannréttindamála, hefur samvinnu við ríki, önnur sveitarfélög og félagasamtök um mannréttindamál og veitir árlega mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar.

Mannréttindaráð er skipað sjö fulltrúum kjörnum af borgarstjórn og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs formann og skal hann vera borgarfulltrúi eða varaborgarfulltrúi. Kjörtímabil ráðsins er hið sama og borgarstjórnar.

Framboðslista sem á fulltrúa í borgarstjórn er skv. 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar heimilt að tilnefna borgarfulltrúa eða varaborgarfulltrúa til að sitja fundi mannréttindaráðs, með málfrelsi og tillögurétt, eigi hann ekki fulltrúa í ráðinu.

Ráðið heldur fundi annan og fjórða þriðjudag hvers mánaðar, kl. 12.00, í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ráðið getur haldið fundi opna almenningi, eftir því sem við á. Fella má niður fundi í allt að tvo mánuði að sumarlagi.

Starfsmaður mannréttindaráðs er Elísabet Pétursdóttir.

Netfang: elisabet.petursdottir1@reykjavik.is

Netfang mannréttindaráðs er mannrettindi@reykjavik.is.

Is this page useful or is something missing?