Hverfisráð Hlíða - Fundur nr. 54

Hverfisráð Hlíða

Ár 2009, þriðjudaginn 15. september var haldinn 54. fundur Hverfisráðs Hlíða. Fundurinn var haldinn í Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og hófst kl. 17:00. Viðstaddir voru Ingvar Mar Jónsson formaður, Garðar Mýrdal, Kristján Guðmundsson og Áslaug Friðriksdóttir. Stefán Benediktsson og Sigurður Þórðarson boðuðu forföll og mættu varamennirnir Linda Ósk Sigurðardóttir og Jens Guðmundsson í þeirra stað. Frá Íbúasamtökum 3. hverfis, Hlíða, Holta og Norðurmýrar mætti Hilmar Sigurðsson, formaður. Auk þess sat fundinn Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Rætt um samgönguþing í Hlíðum. Ákveðið að halda það miðvikudaginn 21. október nk. Framkvæmdastjóra falið að undirbúa það og ræða við leik- og grunnskóla o.fl. um þátttöku.

2. Garðar Mýrdal ræddi um niðurstöður starfshóps um framtíð Miklatúns, en hann sat í þeim starfshópi. Framkvæmdastjóra falið að óska eftir því að niðurstöður starfshópsins verði sendar Hverfisráði Hlíða til kynningar og umsagnar.

3. Formaður íbúasamtakanna benti á að enn hefði Hverfisráð Hlíða ekki fengið til umsagnar skipulagsáætlanir vegna Hlíðarfóts, Háskólasvæðis í Öskjuhlíð eða breikkun Miklubrautar. Einnig sagði hann íbúasamtökin mótmæla harðlega að Reykjavíkurborg sinni ekki lögboðinni skyldu sinni til grenndarkynningar vegna breikkunar Miklubrautar. Hverfisráðið tekur undir með formanni íbúasamtakanna og felur framkvæmdastjóra að kalla eftir skýringum á því til Umhverfis- og samgöngusviðs, hvers vegna slík grenndarkynning hefði ekki farið fram áður en framkvæmdir við breikkun Miklubrautar hófst. Þá ítrekar Hverfisráð Hlíða að skv. 3. gr. samþykkta um hverfisráð skal senda ráðinu allar „auglýstar breytingar á skipulagi er snerta hverfið og opinberar auglýsingar umhverfissviðs er varða hverfið, auk kynninga á stærri framkvæmdum og meginbreytingum á þjónustu“ og felur framkvæmdastjóra að óska eftir því að fá til kynningar áðurnefndar skipulagsáætlanir.

Formaður íbúasamtakanna ræddi um mikla og vaxandi hljóðmengun frá umferðinni á Miklubraut og lagði fram minnisblað frá Verkfræðistofunni Línuhönnun um mælingar á því. Að lokum ítrekaði formaður íbúasamtakanna fyrri fyrirspurnir sínar um hver staðan væri á verkefnum (1) tengdum hraðatakmörkunum á Háteigsvegi og í Stakkahlíð, (2) endanlegri lokun Bólstaðarhlíðar og hönnun á þeirri lokun og (3) breytingu á Flókagötu og Lönguhlíð í 40 km götur. Framkvæmdastjóra falið að leita svara.

Fundi slitið kl. 18:25

Ingvar Mar Jónsson
Garðar Mýrdal Kristján Guðmundsson
Linda Ósk Sigurðardóttir Áslaug Friðriksdóttir