Hverfisráð Miðborgar - Fundur nr. 26

Hverfisráð Miðborgar

Ár 2005, mánudagur 9. maí, var haldinn 26. fundur hverfisráðs Miðborgar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu og hófst kl. 10:00. Viðstaddir voru: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður, Gísli Marteinn Baldursson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sátu fundinn Kristín Einarsdóttir miðborgarfulltrúi og Hafdís Gísladóttir framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða sem ritaði fundargerð.
Jafnframt sátu fundinn í umræðu um 2. lið þau Guðmundur Sighvatsson, skólastjóri Austurbæjarskóla, Steinunn Ásgeirsdóttir, formaður foreldraráðs Austurbæjarskóla, Birna Sigurjónsdóttir, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og Rúnar Gunnarsson, Fasteignastofu Reykjavíkur.

Þetta gerðist:

1. Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða.
Lagt fram minnisblað Kristínar A. Árnadóttur, nr. R04100035, um verkaskiptingu milli Þjónustu- og rekstrarsviðs og skrifstofu borgarstjóra vegna miðborgarmála.

2. Skólamál í Miðborginni.
Umræða um húsnæðismál Austurbæjarskóla, áætlaðan nemendafjölda samkvæmt nemendaspá fram til ársins 2012 og framtíðarlausn í húsnæðismálum skólans. Hverfisráðið samþykkti eftirfarandi ályktun:
Fundur í hverfisráði Miðborgar, haldinn 9. maí 2005, samþykkir að beina því til borgarráðs, menntaráðs og menntamálaráðherra að hið fyrsta verði fundin lausn á húsnæðismálum Austurbæjarskóla. Er það skoðun hverfisráðsins að besta framtíðarlausnin felist í því að Vörðuskóli verði tekin undir unglingadeildir skólans en þar til hann er tilbúinn til notkunar þarf að leysa húsnæðismálin til bráðabirgða. Til að liðka fyrir þessari lausn er mikilvægt að ríki og borg taki höndum saman um að leysa samhliða úr húsnæðismálum Iðnskólans þannig að hann geti verið til frambúðar á Skólavörðuholti. Úrlausn þessara mála má ekki dragast mikið lengur þar sem fyrirsjáanlegt er að veturinn 2007-2008 gæti skapast vandræðaástand í Austurbæjarskóla ef skólinn hefur ekki fengið viðunandi lausn á húsnæðismálum sínum.

3. Valssvæðið. Kynningarfundur fyrir íbúa Miðborgar og Hlíða.
Lögð fram drög að dagskrá vegna kynningarfundar um uppbyggingu að Hlíðarenda og framkvæmd í nágrenninu sem Íþróttafélagið Valur, hverfisráð Miðborgar og hverfisráð Hlíða efna til 2. júní nk.
Drög að dagskrá samþykkt.

4. Rýnihópur um skipulag Laugavegar.
Umræður um tilnefningu fulltrúa hagsmunaaðila og íbúa í rýnihóp um skipulag Laugavegar. Ákveðið að formaður kanni frekar tilnefningu á fulltrúum.

5. Grenndarstöðvar.
Lagt fram erindi frá Umhverfissviði, dags. þ. 10. mars sl., þar sem staðsetning grenndargáma er kynnt fyrir Hverfisráðinu.
Ákveðið að óska eftir við Umhverfissvið að fyrirhugaðri staðsetningu stöðva í Lækjargötu verði breytt og henni fundinn nýr staður.

6 Samstarf við lögreglu.
Samþykkt að stefna að fundi með samstarfsnefnd lögreglu, hverfisráði Miðborgar, fulltrúa veitingaaðila, íbúa og foreldrahúss, í byrjun næsta mánaðar.

7. Styrkumsókn
Umsókn nemenda í 9. bekk Austurbæjarskóla um styrk vegna vorhátíðar í skólanum 4. júní nk. Samþykkt að veita styrk að upphæð 50 þúsund krónur.

Fundi slitið kl. 12:10

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Gísli Marteinn Baldursson Þorleifur Gunnlaugsson