Menningar-  og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar auglýsir eftir umsóknum forsvarsmanna hátíða um samstarfsamning sem ein af Borgarhátíðum Reykjavíkur 2017 – 2019. Nokkrar lykilhátíðir verða valdar sérstaklega af menningar- og ferðamálaráði og fá viðurkenninguna Borgarhátíðir Reykjavíkur með sérstökum þriggja ára samningi og fjárframlagi. 
 
 
Markmiðið er að styðja samfellu, framþróun og rekstrarlegar grundvöll hátíða í Reykjavík sem þegar hafa sannað ótvírætt gildi sitt hvað varðar þýðingu fyrir menningarlífið í borginni, alþjóðleg tengsl, jákvæð áhrif á ferðamennsku og ímynd Reykjavíkur auk efnahagslegs umfangs.  Um er að ræða nýtt fyrirkomulag sem byggir á áherslum í  menningar- og ferðamálastefnum Reykjavíkurborgar.
Borgarhátíð Reykjavíkur þarf að uppfylla eftirfarandi  skilyrði:

a) vera til eflingar menningar og listum í Reykjavík
b) vera opin almenningi, aðgengileg og sýnileg
c) hafa verið haldin að lágmarki fimm sinnum
d) vera haldin árlega
e) vera með alþjóðlega tengingu
f) standa yfir í þrjá daga eða lengur
g) vera með faglega stjórn
h) viðhafa góða stjórnarhætti og rekstrarlegt gegnsæi
i) fullnægja kröfum um fagmennsku og gæði
j) vera framúrskarandi á sínu sviði

Jafnframt  verður litið til þátta eins og nýsköpunar, umfangs, aðsóknar, kynningar, stöðugleika, þróunarmöguleika, margfeldisáhrifa, atvinnuskapandi þátta, tímasetningar innan ársins, möguleika hátíðanna á eigin tekjuöflun og þróun í átt að sjálfbærni. Samfélagsleg vídd í starfsemi hátíðanna er mikilvæg svo sem á sviði menningaruppeldis barna;  samstarfs við íbúa, í menningar- og listalífi  og samstarfi við borgarstofnanir,  aðkomu og samstarfi við minnihlutahópa, áherslu á umhverfismál o.fl.
Nýr samningur til þriggja ára felur í sér markmið um starfsemi, þróun og rekstur með tilskyldum fyrirvörum um samþykkt fjárhagsáætlunar Reykjavíkurbogar hverju sinni.

Hátíðir sem þegar eru með samning í gildi fyrir árið 2017 og/eða lengur geta sótt um að verða Borgarhátíð Reykjavíkur, en hljóti þær ekki tilnefninguna gildir fyrri samningur óbreyttur.  Hátíðir með lausan samning eru hvattar til að sækja jafnframt um almenna menningarstyrki Reykjavíkurborgar skv. auglýsingu á reykjavik.is/styrkir.

Umsóknarfrestur er til kl. 12 á hádegi 3.október 2016.
Umsókn sendist í tölvupósti á menning@reykjavik.is. Í umsókninni komi fram hvernig hátíðirnar uppfylla ofangreind skilyrði ásamt ársreikningi síðustu þriggja ára og starfs- og fjárhagsáætlun 2017. Nánari upplýsingar veitir signy.palsdottir@reykjavik.is  s. 411 6021.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 0 =