Bjarkarhlíð | Reykjavíkurborg

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið Bjarkarhlíðar er að veita stuðning og ráðgjöf ásamt fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið. Bjarkarhlíð býður upp á fyrirlestra og námskeið um birtingarmyndir ofbeldis og afleiðingar þess. Bjarkarhlíð er við Bústaðaveg og tók til starfa 1. febrúar 2017.

 • Bjarkarhlíð
 • Loftmynd af Bjarkarhlíð.
 • Bjarkarhlíð - lógó

Ráðgjöf, stuðningur og fræðsla

 • Bjarkarhlíð býður upp á ráðgjöf og upplýsingar fyrir fólk sem hefur verið beitt ofbeldi.  Hjá Bjarkarhlíð er unnið með þolendum ofbeldis á þeirra forsendum. Öll þjónusta er undir sama þaki með það að marki að auðvelda þolendum að leita aðstoðar. 
 • Bjarkarhlíð leggur áherslu á þverfaglega samvinnu mismunandi stofnanna og samtaka sem koma að vinnu á staðnum. Brotaþola er mætt í hlýlegu og öruggu umhverfi og á þeirra forsendum. Veitt verður samhæfð þjónusta fyrir brotaþola ofbeldis sem samstarfsaðilar veita ásamt tveim föstum starfsmönnum Bjarkarhlíðar.
 • Einstaklingsviðtöl og ráðgjöf verður i boði svo og tenging við aðra þjónustu sem er til staðar, þ.m.t velferðarþjónustu sveitafélaganna og heilsugæslu.
 • Markmiðið Bjarkarhlíðar er að efla fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis. Ásamt því gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið. Bjarkarhlíð býður upp á fyrirlestra og námskeið um birtingarmyndir ofbeldis og afleiðingar þess.

 

Þjónusta Bjarkarhlíðar

Þolendum ofbeldis gefst kostur á viðtölum og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu.

 • Fyrir 18 ára og eldri sem orðið hafa fyrir ofbeldi.
 • Börnum þolenda.
 • Fyrir þolendur af öllum kynjum sem sætt hafa heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, ofbeldi gegn öldruðum eða eru fórnarlömb mansals geta fengið heildræna þjónustu sem tekur mið af upplifun þeirra af ofbeldinu.
 • Samhæfð þjónusta og fagleg ráðgjöf.
 • Einstaklingsviðtöl fyrir þolendur ofbeldis.
 • Lagaleg ráðgjöf.
 • Félagsleg ráðgjöf og aðstoð við umsóknarferli í önnur úrræði, s.s. fjárhagslega aðstoð og húsnæðisbætur.
 • Aðstoð lögreglu við að leggja fram kærur í ofbeldismálum og upplýsingar um réttarvörslukerfið.
 • Aðstoð lögreglu um hvernig hægt er að tryggja öryggi þolanda og mat á áhættu.
 • Fræðsla og námskeið um eðli og afleiðingar ofbeldis.

Athuga að það er aðgengi fyrir fatlað fólk í Bjarkarhlíð.

Ávinningur af Bjarkarhlíð

Eins og þekkt er getur ofbeldi í hvaða mynd sem er haft alvarlegar afleiðingar bæði til skemmri og lengri tíma fyrir þá sem því sæta. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur tilgreint margvíslegar afleiðingar fyrir brotaþola ofbeldis. Það er vitað að heilsufarslegar afleiðingar þess að sæta ofbeldi geta verið miklar; líkamlegir verkir, aukin tíðni veikinda, þunglyndi, áfallastreituröskun, svefnerfiðleikar, andlegir sjúkdómar, aukin tíðni sjálfsvígstilrauna og sjálfsvíga auk áfengis-og fíkniefnamisnotkunar.

Sýnt hefur verið fram á að börn sem búa við ofbeldi eða verða vitni af ofbeldi geta orðið fyrir jafn skaðlegum áhrifum þó þau verði ekki sjálf fyrir ofbeldinu. Ennfremur eru hópar í samfélaginu sem eru frekar í áhættu á að verða fyrir ofbeldi eins og aldraðir, fatlaðir og fólk af erlendum uppruna sem þekkir ekki rétt sinn og leiðir til að óska eftir aðstoð í samfélaginu.

Verkefnastjóri Bjarkarhlíðar er Ragna Björg Guðbrandsdóttir, félagsráðgjafi, MSW. Hægt er að óska eftir frekari upplýsingum með því að senda henni tölvupóst, ragna.bjorg.gudbrandsdottir@reykjavik.is 

Sérfræðingur Bjarkarhlíðar er Hafdís Inga Hinriksdóttir, félagsráðgjafi MA. Hægt er að óska eftir frekari upplýsingum með því að senda henni tölvupóst, hafdis.inga.hinriksdottir@reykjavik.is

Nafnið

Bjarkarhlíð dregur nafn sitt af húsnæðinu sem Reykjavíkurborg leggur verkefninu til en það hefur verið í eigu borgarinnar síðan árið 1972. 

Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytis, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar.

Bjarkarhlíð er þróunarverkefni til tveggja ára (2017-2019). Starfsemin mun heyra undir mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og mun starfsaðstaða vera í húsnæði Reykjavíkurborgar í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg.  Þjónustan miðast við Reykjavíkurborg til að byrja með en gert er ráð fyrir aðkomu annarra sveitafélaga að verkefninu þegar fram í sækir.

Bjarkarhlíð tók til starfa 1. febrúar 2017

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

6 + 0 =