Árlegir umhverfisfræðsluviðburðir

Hér má finna upplýsingar um árlega viðburði á viðburðadagatali Reykjavíkur sem innihalda umhverfisfræðslu með einum eða öðrum hætti.

Dagur íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru hefur verið haldinn hátíðlegur þann 16. september á hverju ári síðan 2011 og hefur Reykjavíkurborg verið virkur þátttakandi með ýmsu móti. Árið 2013 fóru eftirtaldir viðburðir fram á vegum Reykjavíkurborgar:

  • Náttúruskóli Reykjavíkur vígði ÚtikennsluAppið, forrit fyrir spjaldtölvur og snjallsíma sem birtir námsefni fyrir leik- og grunnskólabörn á tilteknum gönguleiðum um borgina.
  • Fræðsluátakið Reykjavík - iðandi af lífi, um lífbreytileika í Reykjavík á vegum Umhverfis- og skipulagssviðs, var hleypt af stokkunum og gefinn út sérstakur bæklingur um líffræðilega fjölbreytni og birtingarmyndir hennar í höfuðborginni.
  • Grasagarður Reykjavíkur og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn buðu skólabörnum í 3. og 4. bekk upp á ratleik þar sem fræðast mátti um flóru og fánu landsins.
  • Í Langholtsskóla var grænn dagur og krakkarnir í unglingadeildinni mættu m.a. í grænum fötum og tóku ljósmyndir utandyra.
  • Í leikskólanum Bakkabörn var farið í fjöruferð.
  • Í Ártúnsskóla var tekið forskot á sæluna með því að halda upp á umhverfisdag skólans þann 13. september og m.a. farið í grenndarskóg skólans.

Nýtnivika

Nýtnivikan var haldin í fyrsta sinn hér á landi 2012 en hún fer fram samtímis í mörgum löndum í Evrópu síðla í nóvember ár hvert. Markmið vikunnar er að draga úr myndun úrgangs og að hvetja fólk til að nýta hluti betur. Reykjavíkurborg tekur þátt í Nýtniviku ásamt Neytendasamtökunum, Sorpu, Landvernd, Umhverfisstofnun og öðrum sveitarfélögum á Íslandi. Nýtnivikan 2013 fer fram daganna 16-24. nóvember.

Samgönguvika

Samgönguvika er evrópskt átak um bættar samgöngur í borgum og bæjum. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga. Samgönguvikan 2013 fór fram daganna 16.-23. september og í Reykjavík var boðið upp á fjölbreytta dagskrá víða um borgina.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 10 =