Leikskólabyrjun | Reykjavíkurborg

Leikskólabyrjun

Að byrja í leikskóla

Þegar leikskólaganga barna hefst er mikilvægt að mynda strax góð tengsl á milli leikskólans og heimilis. Gagnkvæm virðing milli foreldra og leikskóla er grundvöllur þess að barninu líði vel og að það fái notið sín. Foreldrar eru fyrstu kennarar barnanna og það er hlutverk leikskólakennara að  koma á góðum samskiptum við foreldra þannig að gott samstarf sé um velferð barnsins. Allir foreldrar eiga það sameiginlegt að vilja börnunum sínum allt það besta.

Í  upphafi þarf að tryggja að ákveðinn starfsmaður sinni aðlögun og fyrstu samskiptum við fjölskylduna, og að hann sé öruggur hlekkur eða “lykilpersóna” á milli heimilis og leikskóla. Leikskólinn þarf að fá góðar upplýsingar um barnið en ekki er síður mikilvægt að leikskólinn veiti foreldrum greinargóðar upplýsingar um skólastarfið, jafnvel útdrátt, einfaldaðar upplýsingar og ljósmyndir. Í leikskólanum Garðaborg hefur verið útbúin myndræn bók "Leikskólinn minn" sem ætluð nýjum börnum og foreldrum þeirra. Hér má sjá sýnishorn af bók Garðaborgar.

Sjá bæklinga fyrir foreldra um leikskólann og samstarf um leikskólabarnið.

Hér má finna áhugavert viðtal við Anna Kirova prófessor við Háskólann í Alberta, Kanada, sem hefur sérhæft sig í málefnum sem snerta börn innflytjenda.

Á heimasíðum leikskóla Reykjavíkur er að finna INFO tengil en þar er búið að safna saman gagnlegum upplýsingum um leikskólabarnið og flokka þær eftir tungumálum. 
 

Foreldrasamstarfið hefst þegar foreldrar hringja og staðfesta leikskólapláss. Oft koma foreldrar að skoða leikskólann og afla sér upplýsinga. Foreldrar eru boðaðir í viðtal, stundum kallað “fyrsta viðtal” þar sem skipst er á upplýsingum og gengið  frá dvalarsamningi. Oft fer þetta fyrsta viðtal fram í leikskólanum en einnig er það góður kostur að bjóða foreldrum upp á að viðtalið fari fram á heimili þeirra. Í þessu símtali, þegar foreldrar hringja og staðfesta leikskólapláss, kemur strax í ljós hvort þörf er á túlki og verður leikskólinn að hafa frumkvæði að því að bjóða hann, eða ákveða í samráði við foreldra hvernig þeim málum verður háttað.

Góð samskipti við foreldra frá upphafi, þekking þeirra á leikskólastarfinu og þátttaka í aðlögun barnsins eykur líkurnar á því að barnið upplifi vellíðan og öryggi í leikskólanum.  

Tvítyngdar samskiptabækur: Í tvítyngdum samskiptabókum eru myndir af barninu sjálfu í daglegu starfi þar sem leitast er við að taka myndir af barninu í aðstæðum þar sem því líður vel. Við myndina er skrifað í stuttu máli á íslensku hvað barnið er að gera og í samstarfi við foreldra er sami texti skrifaður á móðurmálinu líka. Tvítyngdar samskiptabækur eru hagnýt leið til að auka orðaforða og stuðla að virku tvítyngi, þ.e. að barnið viðhaldið og efli móðurmál sitt um leið og það nær tökum á íslensku sem öðru máli. Þá eru bækurnar öflugt verkfæri fyrir foreldra til að eignast raunverulega hlutdeild í leikskólagöngu barnsins og auðveldar þeim að skilja betur það starf sem fram fer í leikskólanum.Hér er hægt að nálgast dæmi um tvítyngdar samskiptabækur. 

Ljáðu mér orð: er myndræn orðabók, hugsuð sem hjálpartæki, til þess að auðvelda barni með annað móðurmál en íslensku að eiga samskipti við börn og fullorðna þegar það byrjar í leikskóla. Hægt er að nálgast orðabókina með því að smella hér: Ljáðu mér orð en mælt er með því að teknar séu myndir af barninu sjálfu í þeim athöfnum sem settar eru upp í bókinni. Leikskólar geta síðan bætt inn orðum og athöfnum að vild.

Lausnarleit í samskiptum: Hér má finna fjölbreyttar leiðir til þess að auðvelda samskipti á milli leikskóla og foreldra sem ekki tala íslensku eða annað það tungumál sem nýtist í þeim samskiptum.