Íslenska sem annað móðurmál og virkt tvítyngi | Reykjavíkurborg

Íslenska sem annað móðurmál og virkt tvítyngi

Hvernig læra lítil börn nýtt mál?
Leikskólabörn í máltöku íslensku sem annars máls læra tungumálið á svipaðan hátt og börn sem eru að læra móðurmálið eða með því að heyra og kynnast þeim orðaforða sem tengist þeim aðstæðum eða verkefnum sem þau taka þátt í hverju sinni. Mikilvægt er að hinir fullorðnu styðji við máltöku barnsins með því að leggja orð á alla hluti, endurtaka það sem barnið segir og víkka út málnotknunina með því að bæta við nýjum orðum. Samskipti við önnur börn í leik og daglegu starfi eru nauðsynleg fyrir barn sem er að ná tökum á íslensku sem öðru máli. Með því að vera til staðar í leik barna og grípa þau námstækifæri sem þar gefast til að virkja börn í samskiptum, skapa leikskólakennarar málumhverfi sem er líklegt til þess að byggja upp færni barna í íslensku sem öðru máli. Þá nauðsynlegt að hafa í huga að börn sem eru að læra tungumálið fái tækifæri til að nota sem flest skynfæri þegar þau læra ný orð. Þegar barnið fær að snerta sítrónu, bragða á henni, sjá hana, lykta af henni og jafnvel hlusta þegar hún dettur í gólfið, festir það orðið sítróna mikið betur í minni en ef það sér einungis mynd af sítrónu.

Mikilvægt er að kenna börnum orð sem tilheyra grunnorðaforða, t.d. orð sem eru notuð á heimilinu en ekki í leikskólanum. Þegar börn eru byrjendur í íslensku sem öðru máli er nauðsynlegt að þau fái mörg tækifæri til þess að tjá sig og taka þátt hvort sem þau eru farin að nota íslensk orð eða ekki. Á þessu tímabili alveg eins og síðar þegar börn eru farin að nota meiri íslensku, skiptir máli að börn fái jákvæða athygli og gjöful samskipti.  Það er misjafnt hversu fljót börn eru að ná tökum á nýju tungumáli og margt sem hefur áhrif á þá framvindu.

Hlutverk leikskólans er að tryggja að börn nái tökum á íslensku sem öðru máli um leið en um leið stuðla að virku tvítyngi með því að leita leiða til að styðja við áframhaldandi þróun móðurmáls þeirra. Leikskólastarfsfólk getur stutt við foreldra í því ferli á fjölbreyttan hátt en ein leið til þess er að virkja móðurmál barna í leikskólastarfinu. Leikskólinn Krílakot á Dalvík og leikskólinn Miðborg í Reykjavík hafa unnið að innleiðingu LAP (Linguistically appropriate practices) en hér má finna lokaskýrslu Krílakots um verkefnið. Góð leið til að efla móðurmál barna um leið og þau ná tökum á íslensku sem öðru máli er að nýta tvítyngdar samskiptabækur.  

Hvað ræður því hvernig börn læra íslensku sem annað mál?

 • Áhugahvöt - hafa börnin áhuga og vilja til þess að læra nýtt tungumál?
 • Aðgangur að tungumálinu - eru börnin nýkomin til landsins, þekkja þau einhverja sem tala íslensku eða fá þau mörg og ólík tækifæri til að leika og starfa í ríku íslensku málumhverfi?
 • Aldur -  hvar er barnið statt í máltöku móðurmáls? Mjög ung börn eiga það til að vera lengur á því stigi að nota heimamálið á meðan eldri börn átta sig á því að nýja málið í umhverfinu er eitthvað allt annað en móðurmálið. 
 • Viðhorf fullorðinna - bæði viðhorf foreldra til íslenskunnar og leikskólakennara til móðurmálsins geta haft áhrif á vilja og löngun barna til að læra nýtt tungumál og/eða viðhalda móðurmálinu.
 • Persónuleiki - opin og félagslynd börn eru oft fljótari að tileinka sér annað mál heldur en lokuð og feimin börn, það hefur þó ekki endilega áhrif á það hvort börn verða betri í nýja málinu þegar fram í sækir.  

Tungumálatorgið  - þar má finna gagnlegar upplýsingar um íslensku sem annað mál

Lestur bóka á íslensku og móðurmáli barna getur skipt miklu máli fyrir málþroska þeirra. Borgarbókasafn Reykjavíkur hefur látið útbúa rafrænt kynningarefni á bókasafninu en það getur nýst vel foreldrum með annað móðurmál en íslensku eða þeim foreldrum sem þekkja ekki bókasafnið eða starfsemi þess. 

Meira um tvítyngda barnið
Matsliti um málþroska

Lestur og bókmenntir
Þegar verið er að lesa bók fyrir börn með annað tungumál en íslensku er gagnlegt að skipta ferlinu í þrennt. Þetta þrískipta lestrarferli er í raun alveg samhljóma könnunaraðferðinni þar sem börn eru undirbúin fyrir þátttöku í lestrarstund, virkjuð til þátttöku í lestrarstundinni og fá tækifæri til að vinna úr því sem lesið var. Myndir, leikræn tjáning, teikningar á töflu, handbrúður, loðtöflusögur og aðrar aðferðir sem miða að því að auka skilning barna á því sem fer fram í lestrarstundum auka möguleika tvítyngdra barna til þátttöku. Samræðulestur hentar vel til að byggja upp skilning barna á lesnum texta og aðferðin Orðaspjall er leið til að byggja upp hlustunarskilning og orðaforða.  

Íslenska í daglegu starfi 
Ekki þarf sérstakt námsefni í íslenskukennslu barna á leikskólaaldri. Allt í leikskólanum, leikefni og öll verkefni ættu að henta til þess að örva málþroska. Kennarar þurfa hins vegar að þekkja þær aðferðir sem eru líklegar til árangurs og mikilvægt er að hafa barnahópa ekki of stóra þegar verið er að vinna með lestur og samræður. Það skiptir þó máli að velja verkefni við hæfi og ekki síður að athuga hvaða forsendur barnið hefur til þess að læra íslensku.

 • Kannið stöðu barnsins í íslensku og móðurmáli og skipuleggið íslenskunámið út frá því hvar hvert einstakt barn er statt. Það er á ábyrgð leikskólakennarans að gera umhverfið eins örvandi og hægt er þannig að barnið fái hvatningu og öðlist vilja til þess að deila hugsunum sínum og hugmyndum. 
 • Notið útskýringar, t.d. í vettvangsferðum. Notið raunverulega hluti til þess að útskýra betur hvað var átt við en þannig geta börnin betur skilið hvað var verið að gera og segja. 
 • Kennið börnunum að spyrja spurninga en það er mikilvægur liður í kennslu annars máls.
 • Eflið orðaforða barnanna með því að kenna þeim markvisst ný orð, einnig flókin orð eftir því sem hæfni þeirra eykst. Hægt er að leggja inn tvö til þrjú ný orð á viku, útskýra þau vel og nýta þau síðan í starfinu með börnunum. Dæmi um það getur verið  orðið hugrökk/rakkur. Orðið er lagt inn og útskýrt, foreldrar fá að vita hvaða orð er verið að vinna með þannig að þeir geti unnið með sambærileg orð á móðurmálinu. Starfsfólk leggur sig fram um að nota nýju orðin á fjölbreyttan hátt t.d. Mikið varstu hugrökk þegar þú hoppaðir niður af sandkassanum eða mikið varstu hugrakkur að láta kennarann vita að þú helltir niður! 
 • Útbúið gott horn fyrir ýmsa hlutverkaleiki, t.d. spítala, skrifstofu, búið, heimili o.s.frv. en á þann hátt læra börnin orð um hluti sem tengjast þessum stöðum í gegnum leik.
 • Ræðið hvað það er sem börnin vita fyrir um ákveðið málefni og bætið við þá þekkingu með nýjum orðum. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir börn með lítinn íslenskan orðaforða.
 • Endurtakið orð, setningar, setningahluta og hugtök. Það liggur í hlutarins eðli að þegar verið er að vinna með könnunarverkefni er sífellt verið að vinna með endurtekningu. Börnum gefst tími til að endurtaka orð, frasa og setningar um málefni sem þau eru að kynnast þangað til þau öðlast betri skilning. Með því að nota vísur, þulur og bækur ýtum við jafnframt undir þessar endurtekningar.
 • Útfærið spurningar til barnanna út frá ólíkri getu þeirra í íslensku. Sum börn geta spurt og svarað já og nei spurningum á meðan önnur börn geta spurt og svarað flóknari spurningum. Smátt og smátt geta kennarar eflt þessa færni hjá börnunum og skilning þeirra á opnum spurningum.

Hafið í huga

 • Notið myndir, látbragð, leikefni og fjölbreytta hluti til að tryggja að börn sem ekki tala mikla íslensku skilji frekar fyrirmæli og það sem verið er að tala um t.d. í samverustundum.
 • Veitið börnum eins mikla athygli og þið getið, sérstaklega þegar þau eru að byrja í leikskólanum. Gefið þeim tíma til þess að hlusta, skilja og bregðast við, reynið að halda augnsambandi og gefið börnunum stöðugt til kynna að þau séu að standa sig vel og að þið takið eftir þeim.
 • Nefnið nafn barnsins oft þannig að það vitii að verið sé að tala til þess
 • Í stað þess að letja börn til þess að tala móðurmál sitt í leikskólanum ætti að hvetja þau til þess á virkan hátt og viðurkenna um leið að öll börn hagnast á því að heyra ólík tungumál.
 • Ekki leiðrétta íslensku barnanna, endurtakið frekar lykilorðin í setningunum með eðlilegri röddu.
 • Leggið ykkur fram um að meta öll tungumál til jafns og hvetjið börn til þess að nota móðurmál sitt þegar við á.
 • Viðurkennið og styðjið við orðlaus tjáskipti, ágiskanir, andlitssvipi, líkamstjáningu, myndir og tákn á meðan barn er að ná tökum á íslensku.
 • Gerið ekki of miklar kröfur til barna um að tala íslensku fyrr en þeim er farið að líða vel í leikskólanum, þau eru farin að eignast vini og gera sjálf tilraunir til þess að nota málið.
 • Tryggið að börn þroski og þjálfi íslensku í innihaldsríku málumhverfi í gegnum leik og störf.
 • Forðist að líta á það sem vandamál að börn tali annað móðurmál en íslensku. Lítið frekar á það sem tækifæri til þess að auðga leikskólastarfið.
   

Allt myndrænt efni getur gert gagn og ýtt undir skilning bæði barna og foreldra. Dæmi um slíkt er myndrænt dagsskipulag, myndrænar samskiptabækur á milli heimilis og skóla og orðalistar með myndum. Auðvelt er að útbúa lítinn bækling með myndum af því sem á að vera í tösku barnsins og lýsingum á útiveru til að skýra markmið með útiveru. Einnig er hægt að útbúa einfaldar lýsingar á námssviðum leikskólans með ljósmyndum úr starfinu.