Vesturbær

Vesturbær

Vesturbær er eitt af gömlu hverfunum í Reykjavík og státar af langri og merkilegri sögu. Í suðri liggur Vesturbær að Skerjafirði og að Kollafirði í norðri. Vesturbærinn liggur að Seltjarnarnesi í vestri en að miðborginni í austri og er hverfið að mörgu leyti mjög tengt miðborginni.

Talsverð atvinnustarfssemi er í hverfinu einkum við höfnina og í Örfyrisey enda hverfið nátengt sjónum og má finna þar margar minjar um útgerð fyrr á öldum.

Nálægðin við sjóinn, Ægisíðan og Eiðisgrandi er eitt af helstu sérkennum hverfisins og fjölsóttasti göngustígur borgarinnar er einmitt á Ægisíðu enda útsýnið fagurt. Ekki má gleyma Vesturbæjarlauginni sem er gríðarlega vinsæl og KR sem á sér djúpar og sterkar rætur meðal hverfisbúa.

Reykjavíkurborg er með víðtæka þjónustu í hverfinu en miðpunktur hennar er Vesturgarður, þjónustumiðstöð hverfisins sem starfrækt er á Hjarðarhaga 45 - 47.

Fréttir úr hverfinu

29. júlí 2014
Undanfarnar vikur hafa staðið yfir framkvæmdir sem tilheyra verkefninu Betri hverfi í Vesturbænum, en nokkur verkefni urðu fyrir valinu í kosningu hjá íbúum Vesturbæjar sl. vor. Eitt af því sem kosið var um var breyting á sundlaugargarðinum við Vesturbæjarlaug. Nú eru þessar framkvæmdir langt komnar og er ljóst að þarna hefur orðið mikil breyting á umhverfinu til batnaðar og um leið mun fegurra. Verkefninu mun ljúka nú á allra næstu dögum. Einnig eru hafnar framkvæmdir við Melaskóla en þar er að koma upphitaður gervigrasvöllur. Reyndar verða ekki battar í kringum hann eins og er á völlum við flest allar skólalóðir landsins. Við vonum samt sem áður að völlur þessi verði upplyfting fyrir börnin sem þarna eru að leik og einnig er þetta upplagt fyrir ýmsa útikennslu. Þegar þessari framkvæmd er lokið vonumst við til þess að fleiri vellir rísi við aðra grunnskóla Vesturbæjar.
3. júlí 2014
Sumarhátíð Frostaskjóls var haldin í dag og var boðið upp á fjölbreytta skemmtun, s.s. hlaup, þrautir, tónlist og sápurennibraut. 
26. júní 2014
Fimmtudaginn 3. júlí n.k. ætla ungmenni úr Frostaskjóli að vera með sumarhátíð þar sem ýmislegt skemmtilegt verður í boði. Hvetjum við alla sem eiga möguleika á því að taka þátt að vera með og mæta

Pages