Veggjakrot og vegglist

Skýr greinarmunur er gerður á veggjakroti (e. tag) og vegglist (e. graffiti).  Reykjavíkurborg vinnur gegn veggjakroti í góðu samráði við íbúa og rekstraraðila. Veggjakrot er alfarið bannað í Reykjavík. 

  • Veggmynd í Hjartagarði
    Veggmynd í Hjartagarði

 

Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir málun veggmynda í tengslum við listviðburði eða í einstökum tilfellum veitt heimild fyrir slíku. Hér að ofan má sjá velheppnaða veggmynd í Hjartagarðinum á Hljómalindareit, en um var að ræða samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og jaðarlistamanna.  

Hver sér um hreinsun á veggjakroti?

 

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar sér um hreinsun veggjakrots á:

● fasteignum borgarinnar, þar á meðal grunn- og leikskólum;
● umferðarmannvirkjum, þar á meðal undirgöngum, umferðarbrúm og hljóðmönum;
● götugögnum, en það eru bekkir, ruslastampar, ljósastaurar, stöðumælar og umferðarskilti;
● leiktækjum, utanhúss við leikskóla og á gæsluvöllum og opnum leiksvæðum í eigu borgarinnar;
● ýmsum mannvirkjum á opnum svæðum í alfaraleið;
● útilistaverkum á opnum svæðum og á lóðum stofnana borgarinnar.

Veggjakrot er alþjóðlegt vandamál og þarf að nálgast sem slíkt í samvinnu og samstarfi fjölda aðila. Markmiðið er að standa sameiginlega að hreinni borg, bættu viðhaldi og góðri umgengni. 

 

Besta ráðið gegn veggjakroti er að bregðast strax við með því að hreinsa og/eða mála yfir krotið!

Leyfi fyrir veggmynd

Húseigendur eða aðrir sem vilja skreyta veggfleti geta sótt um leyfi hjá byggingarfulltrúa. Óheimilt er að mála veggmyndir á hús, nema með leyfi byggingafulltrúa.

Kostnaður vegna veggjakrots

Kostnaður við aðgerðir Reykjavíkurborgar vegna veggjakrots er umtalsverður eins og sjá á í meðfylgjandi töflu. Kostnaðartölur í töflunni er í milljónum króna. Tölur eru kostnaðartölur á verðlagi hvers árs.

  2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014
Hreinsun umferðarmannvirkja, opin svæði, götugögn og sérstök álagssvæði veggjakrots. Einnig miðborgarverkefni. 68 81 36 25 14 14 8  
Átaksverkefni (Hrein borg o.fl.) 0 50 0 16 0 0 0  
Fasteignir og lóðir í eigu borgarinnar 31 28 18  14 12 9 9  
Samtals: 99 159 54 55 26 23 15  

Skýringar við töflu: Kostnaður 2013 er staða í lok október. 

Þegar kostnaðartölur eru skoðaðar má sjá mikla hækkun á árinu 2008, en vorið 2008 var umfang veggjakrots í borginni orðið gríðarlegt og íbúar kölluðu eftir markvissum aðgerðum borgaryfirvalda. Til að mæta þessum óskum var farið í átak undir yfirskriftinni „Hrein borg“ til að stemma stigu við veggjakroti.

Kostnaður tilgreindur í töflunni er hluti Reykjavíkurborgar einnar en tengdar stofnanir hafa einnig lagt sitt af mörkum, og má þar nefna Orkuveituna, Strætó b.s. og Faxaflóahafnir.  Heildarkostnaður við hreinsun veggjakrots í borginni er því hærri. Ótalinn er einnig kostnaður sem verður vegna tjóns sem íbúar og rekstraraðilar í Reykjavík verða fyrir af völdum veggjakrots.

Átakið „Hrein borg“

Hluti af átaksverkefninu „Hrein borg“ var að varpa ljósi á umfang veggjakrots í Reykjavík og var það skráð og myndað með skipulögðum hætti. Sú vinna stóð frá maí til október 2008 og var það í fyrsta skipti sem veggjakrot hefur verið kortlagt með heildstæðum hætti í allri Reykjavík. Niðurstaðan var sláandi, eða 42 þúsund fermetrar af veggjakroti, eins og sjá má í töflunni hér að neðan auk samanburðar við skráningu USK sem gerð var 2012 í tengslum við atvinnuátaksverkefni.

Heildarflötur veggjakrots í Reykjavík 42.000 m2.
Heildarfjöldi staða/viðfanga í Reykjavík 25.000 m2.
Heildarflötur veggjakrots á miðborgarsvæði 14.000 m2 (34% af kroti í Reykjavík).
Heildarfjöldi staða/viðfanga í Reykjavík á miðborgarsvæði 5.273 m2.

Samanburðarskráning var gerð af umhverfis- og skipulagssviði árið 2012 þar sem staðfestur var verulegur árangur af skipulögðu átaki Reykjavíkurborgar í málaflokknum. Á undangegnum árum hefur verið tekið upp samstarf við vegglistarmenn og er dæmi þar um samtarfsverkefni í Hjartagarðinum 2012.

• Veggjakrot fer úr 42.000 í 16.000 m2:
– 60% minna veggjakrot séð frá sjónlínu götu.

• Miðborgin og gjörbreytt ástand:
– 90% minna veggjakrot (14.000 í 1600 m/2),
– Miðborgarverkefni (hreinsun og ráðgjöf),
– Veggmyndir skráðar 47 í Reykjavík.
 

Mikilvægi miðborgarinnar undirstrikað

Miðborg Reykjavíkur gegnir sérstöku hlutverki sem mikilvægasti hluti höfuðborgar landsins. Ásýnd og umgengni í kjarna miðborgarinnar er hagsmunamál allrar þjóðarinnar og varðar fjölmarga þætti. Má þar nefna ferðaþjónustu, verslun og viðskipti og stjórnsýslu landsins. Einnig er miðborgin miðpunktur menningarlegra verðmæta, hátíðarhalda og stórviðburða og síðast en ekki síst staður fólksins til að njóta lífsins á, til dæmis á kaffihúsum, veitingastöðum, við Tjörnina eða á Austurvelli. Sérstaða miðborgarinnar gerir kröfur til borgaryfirvalda um að tryggja með markvissum hætti góða umgengni í miðborginni og að henni sé ávallt vel við haldið.

Reykjavíkurborg hvetur til góðar umgengni og bættrar umhverfisvitundar og hefur sett sér það markmið að halda miðborginni hreinni og lausri við veggjakrot. Með átaki var snúið við óheillaþróun sem hafði verið í miðborg Reykjavíkur um nokkurt skeið og birtist meðal annars í kroti og málun myndtákna á húsveggi. Mikilvægur þáttur í áherslum Reykvíkurborgar er að efla umhverfisvitund og hvetja fasteignaeigendur til að halda sem best við sínum eignum og umhverfi. Reykjavíkurborg hefur átt gott samstarf við eigendur húsnæðis í miðborginni og hefur frumkvæði borgarinnar almennt verið tekið mjög vel af fasteignaeigendum og þeir sýnt í vilja sinn í verki með að viðhalda og fegra eignir sínar.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Ábendingar og fyrirspurnir um veggjakrot getur þú sent á netfangið upplysingar@reykjavik.is, og fyrirspurnir vegna veggmynda á netfangið usk@reykjavik.is.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

1 + 0 =