Húseigendur og lóðarhafar geta sótt um byggingaleyfi. Umsókninni er skilað á stöðluðu umsóknareyðublaði. Með umsókn skulu fylgja aðaluppdrættir, útfylltur gátlisti og önnur tilgreind fylgiskjöl. Vegna umsóknar skal greiða tilskilið lágmarksgjald, nú 9.500 krónur.

Hvenær skal sækja um byggingarleyfi?

Sækja þarf um byggingarleyfi til að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útlit og formi. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík annast útgáfu byggingarleyfa fyrir mannvirki sem staðsett eru í Reykjavík og er leyfið veitt á grundvelli laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Með mannvirki er átt við hvers konar jarðfasta manngerða smíði, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagna. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja.

Undantekning frá byggingarleyfisskyldu eru þó fráveitumannvirki og dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta og breytingar á slíkum mannvirkjum. Sækja þarf hins vegar um byggingarleyfi vegna bygginga sem tengdar eru fráveitumannvirkjum og dreifi- og flutningskerfum hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta, þ.m.t. fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum.

Undanþegið byggingarleyfi eru einnig ýmsar minniháttar framkvæmdar samkvæmt gr. 2.3.5 í byggingarreglugerðinni. Undanþágur má sjá hér.

Undanþegið byggingarleyfi

Samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð eru eftirfarandi framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi. Framkvæmdaraðili ber þó ábyrgð á að ekki skapist hætta fyrir fólk og eignir og að virt séu öll viðeigandi ákvæði reglugerðarinnar. Hann ber jafnframt ábyrgð á að framkvæmd sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og að ekki sé gengið á rétt nágranna.

 • Allt viðhald innanhúss í íbúðarhúsum, s.s. endurnýjun innréttinga, viðhald lagnabúnaðar innan íbúðar o.þ.h.
   
 • Breytingar eða endurnýjun á léttum innveggjum íbúðar, að undanskildum burðarveggjum og eldvarnarveggjum. Ekki má þó flytja til votrými eða eldhús innan íbúðar, né breyta burðarvirki, nema að fengnu byggingarleyfi.
   
 • Allt minniháttar viðhald innanhúss í atvinnuhúsnæði, s.s. endurnýjun innréttinga, viðhald lagnabúnaðar innanhúss o.þ.h.
   
 • Endurnýjun léttra innveggja í atvinnuhúsnæði, þó ekki burðarveggja og eldvarnarveggja. Tilkynna þarf leyfisveitanda um framkvæmdir áður en þær hefjast með því að leggja fram breyttar teikningar. Ekki má flytja til votrými eða eldhús, né breyta burðarvirki, nema að fengnu byggingarleyfi.
   
 • Viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga þegar notað er eins eða sambærilegt efni og frágangur er þannig að útlit byggingar sé ekki breytt.
   
 • Klæðning þegar byggðra bygginga í dreifbýli. Tilkynna þarf leyfisveitanda um framkvæmdir áður en þær hefjast með því að leggja fram viðeigandi gögn.
   
 • Sækja ber um byggingarleyfi fyrir breytingu á útliti byggingar eða þegar endurbyggja þarf burðarvirki að hluta eða öllu leyti.
   
 • Uppsetning móttökudisks, allt að 1,2 m að þvermáli, vegna móttöku útsendinga útvarps eða sjónvarps eða móttökuloftnets, að því tilskildu að slíkt sé ekki óheimilt samkvæmt skilmálum skipulags.
   
 • Allt eðlilegt viðhald lóðar, girðinga, bílastæða og innkeyrslu.
   
 • Gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð, enda rísi pallur ekki hærra en 0,3 m frá því yfirborði sem fyrir var.
   
 • Pallur úr brennanlegu efni má þó ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m.
   
 • Ekki er heimilt að breyta hæð lóðar á lóðarmörkum án samþykkis leyfisveitanda og samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þá er ekki heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni nágranna, t.d. vegna útsýnis.
   
 • Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m.
   
 • Girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum.
   
 • Allt að 2,0 m langir og 2,5 m háir skjólveggir sem eru áfastir við hús og í a.m.k. 1,8 m fjarlægð frá lóðarmörkum.
   
 • Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingu eða skjólvegg allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina.
   
 • Hámarkshæð girðingar/skjólveggjar miðast við jarðvegshæð við girðingu/vegg eða jarðvegshæð lóðar á lóðarmörkum ef hæð jarðvegs þar er meiri en jarðvegshæð á lóð við vegginn.

Hverjir geta sótt um byggingarleyfi?

Húseigendur og lóðarhafar eða hönnunarstjóri í umboði þeirra geta sótt um byggingaleyfi.
Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 ber húseigendum að ráða löggiltan hönnunarstjóra. Hönnunarstjóri hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á því að hönnunargögn séu til staðar og með þeim hætti sem byggingarleyfisumsókn og framkvæmd krefst. Hönnunarstjóri er að öllu jöfnu sá aðili sem annast öll samskipti við embætti byggingarfulltrúa þegar sótt er um byggingarleyfi.

Fyrirspurnir

Með fyrirspurn getur húseigandi eða lóðarhafi kannað hvort leyfi muni fást fyrir tiltekinni framkvæmd, án þess að leggja fram fullnaðaruppdrætti. Þetta er gert í því skyni að spara hönnunarkostnað ef fyrirhuguð framkvæmd er ósamþykkjanleg.

Sé svar byggingaryfirvalda jákvætt getur fyrirspyrjandi fylgt málinu eftir með byggingarleyfisumsókn. Fyrirspurnir eru lagðar fyrir á vikulegum afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og er öllum svarað skriflega.

Ábendingar

Til að bæta þjónustu embættis byggingarfulltrúa eru allar ábendingar og athugasemdir vel þegnar. Þeim má koma á framfæri bréflega og á netfangið byggingarfulltrui@reykjavik.is

Sótt er um þjónustuna á útprentuðu umsóknareyðublaði.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

4 + 2 =