Skrifstofa borgarstjóra og borgarritara

Á fundi borgarstjórnar 16. júní 2014 var Dagur B. Eggertsson kosinn borgarstjóri.

Borgarstjórinn í Reykjavík er æðsti yfirmaður tæplega 8.000 starfsmanna Reykjavíkurborgar. Borgarstjóri gegnir þremur meginhlutverkum. Hann er framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar, fulltrúi Reykjavíkurborgar á opinberum vettvangi og pólitískur leiðtogi meirihlutans.

Borgarritari er Stefán Eiríksson. Hann er æðsti embættismaður borgarinnar að undanskildum borgarstjóra og einn af staðgenglum hans. Borgarritari hefur yfirumsjón með miðlægri stjórnsýslu og stoðþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar.  Netfang Stefáns er stefan.eiriksson@reykjavik.is

Kjarnahlutverk skrifstofu borgarstjóra og borgarritara felst í þjónustu við embætti borgarstjóra og borgarritara auk þess sem hún hefur yfirumsjón með miðlægri stoðþjónustu og samhæfingu innan stjórnsýslunnar.

Skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara er Helga Björg Ragnarsdóttir. Netfang Helgu er helga.bjorg.ragnarsdottir@reykjavik.is.

Helstu verkefni skrifstofunnar eru:

• undirbúningur mála fyrir borgarráð og borgarstjórn,
• samskipti við borgarbúa og aðra hagsmunaaðila,
• undirbúningur og umsjón viðtalstíma borgarstjóra,
• móttaka og eftirfylgni erinda,
• viðburðastjórnun og móttökur,
• erlend samskipti,
• ýmis átaks-, lýðræðis- og þróunarverkefni.

Undir skrifstofu borgarstjóra og borgarritara heyra upplýsinga- og vefdeild, mannauðsdeild, tölfræði og greining og borgarskjalasafn.

Upplýsingadeild heldur utan um og ber ábyrgð á upplýsingamiðlun Reykjavíkurborgar. Deildin ritstýrir og ber ábyrgð á vefsvæðum borgarinnar og sér um fréttatilkynningar til fjölmiðla. Þá sér deildin um að svara fjölmiðlafyrirspurnum þvert á borgarkerfið, heldur utan um móttöku erlendra fjölmiðlamanna og er ráðgefandi varðandi samskipti við fjölmiðla, útgáfumál, auglýsingamál, kynningarherferðir og fundaherferðir.

Mannauðsdeild hefur yfirumsjón með mannauðsmálum Reykjavíkurborgar sem felur í sér eftirlit með framkvæmd starfsmannastefnu, forystu um stefnumótun í mannauðsmálum, samræmingu mannauðsmála og ráðgjöf til borgaryfirvalda í þeim efnum. Auk þess annast deildin mannauðsþjónustu fyrir miðlæga stjórnsýslu í Ráðhúsi og kemur að gerð kjarasamninga. Mannauðsdeild hefur jafnframt yfirumsjón með atvinnumálum sem snúa að atvinnutengdum úrræðum og vinnumiðlun sérstakra starfa innan Reykjavíkurborgar. Deildin framfylgir stefnu borgaryfirvalda í atvinnumálum og er þeim til ráðgjafar..

Tölfræði og greining ber ábyrgð á greiningu og birtingu tölfræðilegra upplýsinga og sinnir álitsgjöf um efnahags- og atvinnumál. Þá leggur deildin fram hagrænar forsendur fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar og þriggja ára áætlunar og sinnir auk þess ýmsum hagfræðilegum verkefnum þvert á svið borgarinnar.

Borgarskjalasafn mótar og setur reglur um skjalastjórn borgarstofnana og fyrirtækja í meirihlutaeign borginnar, hefur eftirlit með skjalastjórn þeirra og tekur við eldri skjölum stofnana borgarinnar og einkaaðila til varðveislu.

Fjármálastjóri Ráðhúss ber ábyrgð á almennri fjármálastjórnun, fjárhagsáætlunargerð, frávikagreiningu og ráðgjöf innan miðlægrar stjórnsýslu. Starfssvið hans nær til innri endurskoðanda, borgarlögmanns, fjármálaskrifstofu, mannréttindaskrifstofu, skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, skrifstofu borgarstjórnar, skrifstofu þjónustu og reksturs, skrifstofu eigna og atvinnuþróunar auk annarra útgjalda sem koma til vegna reksturs miðlægrar stjórnsýslu. Fjármálastjóri Ráðhúss hefur að markmiði að ávallt séu til staðar áreiðanlegar upplýsingar um rekstur miðlægrar stjórnsýslu sem mæti þörfum borgarráðs og stjórnenda miðlægra skrifstofa.

Starfsfólk skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 13 =