Menningar- og ferðamálasvið

Sviðsstjóri er Arna Schram.

Menningar- og ferðamálasvið ber ábyrgð á menningarmálum og rekstri menningarstofnana Reykjavíkurborgar. Það annast tengsl og þjónustu við ferðaþjónustuna og heildstæða kynningu á Reykjavík. Þá sér sviðið um skipulagningu og framkvæmd ýmissa viðburða og hátíða.

Sviðsstjóri vinnur með menningar- og ferðamálaráði, stýrir undirbúningi fyrir fundi ráðsins og framkvæmd ákvarðana þess. Hann ber ábyrgð á að rekstur og stjórnsýsla menningar- og ferðamálasviðs sé í samræmi við lög og markaða stefnu Reykjavíkurborgar þar með talið í fjármálum, þjónustu- og starfsmannamálum.  Sviðsstjórinn hefur faglega forystu á sviðinu, ber ábyrgð á innleiðingu breytinga og nýsköpunar og heyra stjórnendur stofnana sviðsins beint undir sviðsstjóra. Sviðsstjóri kynnir fyrir fagráði tillögur í frumvarp að fjárhagsáætlun og starfsáætlun og hefur eftirlit með framkvæmd stefnumótunar og starfsáætlana. Sviðsstjóri ber af hálfu sviðsins ábyrgð á samskiptum og tengslum þess innan borgarkerfis sem utan.

Skrifstofa sviðsins

Skrifstofa sviðsins sinnir jafnframt þjónustu við menningar- og ferðamálaráð og samskiptum við stjórnsýslu borgarinnar. Skrifstofan ber ábyrgð á skjalavörslu, móttöku og umsjón erinda sem berast sviðinu. Mannréttindamál og umsjón með ytri og innri vef sviðsins er vistuð á skrifstofunni auk ýmissa annarra sérverkefna og eftirliti með framkvæmd stefnumótunar.

Skrifstofa rekstrar og fjármála ber ábyrgð á almennri fjármálastjórnun, fjárhagsáætlunargerð og ráðgjöf til stofnana sviðsins. Á skrifstofunni eru unnin reglubundin uppgjör og ársreikningur og almennt eftirlit haft með rekstri. Skrifstofustjóri vinnur jafnframt með sviðsstjóra og forstöðumönnum stofnana að hagræðingu, bættri áætlanagerð og einstökum verkefnum á vettvangi fjármála og rekstrar.  Miðlæg mannauðsmál og samhæft árangursmat sviðsins er einnig á ábyrgð skrifstofunnar og er skrifstofustjóri tengiliður sviðsins vegna miðlægrar þjónustu svo sem upplýsingatækni, innkaupamála, bókhalds og launavinnslu. Skrifstofustjóri er staðgengill sviðsstjóra. 

Skrifstofa menningarmála vinnur ásamt sviðsstjóra að framkvæmd ákvarðana menningar- og ferðamálaráðs á vettvangi menningarmála. Vinnur hún ásamt sviðsstjóra að ýmsum þáttum sem snerta starfsemi menningarstofnana sviðsins. Jafnframt ber hún ábyrgð á undirbúningi, umsjón og tengslum vegna starfsamninga, styrkja og viðurkenninga á vettvangi menningarmála og er auk þess tengiliður Reykjavíkurborgar í málefnum Borgarleikhúss, Listahátíðar í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún ber ábyrgð á umsjón ýmissa sérverkefna. Alþjóðleg samskipti sviðsins í menningarmálum heyra jafnframt undir skrifstofustjóra menningarmála. Skrifstofan vinnur ásamt fjármálastjóra að áætlanagerð, uppgjörum og eftirliti með rekstrarlegum þáttum verkefna á sviði menningarmála. Skrifstofan svarar einnig fyrirspurnum um menningarmál. Skrifstofustjórinn situr að öllu jöfnu fundi ráðsins.

Reykjavíkurborg var útnefnd ein af Bókmenntaborgum UNESCO á árinu 2011 og eru verkefni Bókmenntaborgarinnar hýst á skrifstofu menningar- og ferðamálasviðs.

Menningarstofnanir Reykjavíkurborgar

Borgarbókasafn Reykjavíkur,  Listasafn Reykjavíkur og Borgarsögusafn Reykjavíkur starfa samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar, menningarstefnu Reykjavíkurborgar og lögum og reglugerðum á hverju sviði.

Höfuðborgarstofa ber ábyrgð á ferðamálum fyrir hönd Reykjavíkurborgar þar með talið heildstæðri kynningu og markaðssetningu á Reykjavík í samræmi við ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar. Hún sér jafnframt um undirbúning og framkvæmd viðburða og hátíða Reykjavíkurborgar samkvæmt nánari skilgreiningu.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

13 + 0 =