Borgarráð

Borgarráð fer, ásamt borgarstjóra, með framkvæmda- og fjármálastjórn Reykjavíkurborgar. Í borgarráði sitja sjö borgarfulltrúar og sjö til vara sem kosnir eru af borgarstjórn eitt ár í senn. Borgarstjórn kýs formann og varaformann úr hópi borgarfulltrúa.

Borgarráð fundar á hverjum fimmtudegi kl. 9:00.

Borgarráð fer, ásamt borgarstjóra, með framkvæmdastjórn Reykjavíkurborgar og fjármálastjórn, að því leyti sem þessi mál eru ekki öðrum falin. Það hefur umsjón með stjórnsýslu Reykjavíkurborgar almennt og fjárstjórn hennar sérstaklega, undirbýr fjárhagsáætlanir og sér um að ársreikningar Reykjavíkurborgar séu samdir reglum samkvæmt. Borgarráði er heimil fullnaðarákvörðun mála sem ekki varða verulega fjárhag borgarsjóðs eða stofnana hans, enda sé ekki ágreiningur innan ráðsins eða við borgarstjóra um ákvörðunina.

Formaður ráðsins er Dagur B. Eggertsson. Varaformaður er Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Í borgarráði sitja sjö borgarfulltrúar kjörnir af borgarstjórn til eins árs í senn og jafnmargir til vara. Borgarstjóri situr fundi borgarráðs, en hann hefur þar ekki atkvæðisrétt nema hann sé sérstaklega í það kjörinn. Flokkur sem fulltrúa á í borgarstjórn, en ekki í borgarráði, má tilnefna borgarfulltrúa til að sitja fundi borgarráðs með málfrelsi og tillögurétt.

Reglulegir fundir borgarráðs eru haldnir í Ráðhúsi Reykjavíkur á fimmtudögum og hefjast kl. 9:00.

Borgarráð starfar samkvæmt V. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Það var stofnað með samþykkt um stjórn bæjarmálefna Reykjavíkur nr. 73/1932. Í V. kafla samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 eru ákvæði um verkefni borgarráðs, sbr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga. Jafnframt er vísað til 2. mgr. 42. gr. laganna varðandi embættisafgreiðslur skrifstofustjóra borgarstjórnar, samanber viðauka 2.1 við samþykktina.