Íbúar í Háaleiti og Bústaðahverfi hafa áhyggjur af umferðarþunga

Umhverfi Mannlíf

Jón Gnarr, borgarstjóri fundaði með íbúum í Háaleitis og Bústaðahverfi var í gær í Réttarholtsskóla og sóttu um 85 manns fundinn. Hann fór m.a. yfir framkvæmdir borgarinnar  í hverfinu í tengslum við verkefnið Betri hverfi í fyrra. Reykjavíkurborg mun aftur verja 300 milljónum til þessu ári og hvatti borgarstjóri íbúa í Háaleiti Bústöðum til að senda inn ábendingar að verkefnum sem þeir telja að geti bætt hverfið.

Þegar erindi borgarstjóra var lokið var opið fyrir umræður úr sal. Samgöngumenning í hverfinu brann á íbúum Háaleitis og Bústaða.  Áhyggjur þeirra snérust um umferðarþunga við aðalæðar um hverfið, s.s. Miklubraut, Grensásveg og Bústaðaveg og komu fram óskir um undirgöng eða brýr fyrir gangandi vegfarendur. Einnig var rætt um betri lýsingu meðfram gangstígum, viðhald á gangstéttum og gerð hljóðmúra. Áhersla var lögð á öryggi barna á leið í skóla- og frístundastarf, auk annarra íbúa sem velja aðra samgöngumáta en einkabílinn. Auk ofantaldra þátta veltu íbúar fyrir sér byggingu sundlaugar í Fossvogsdal, framkvæmdum á skólalóðum og útbreiðslu aspa.

Borgarstjóri sagði að lokum að samgöngumenningin væri íbúum borgarinnar augljóslega hugleikin og að skapa þyrfti betra jafnvægi milli ólíkra samgöngumáta í borginni. Fólk virtist líka í auknum mæli meðvitaðra um gróður og hefði trú á að ólíkar tegundir þrífist í borgarlandinu.

Fundurinn þótti takast vel og leiddu umræður af sér margar góðar hugmyndir fyrir Háaleiti og Bústaðahverfi.

Framkvæmdafé vegna verkefna Betri hverfa í Háaleitis- og Bústaðahverfi er sama og í fyrra eða 34 milljónir króna. 

Vefurinn Betri Reykjavík – Betri hverfi er nú opinn fyrir hugmyndir borgarbúa og rökræðum vegna ýmissa smærri hverfaverkefna. Í mars verður kosið um verkefni til framkvæmda. 

Þeir sem ekki komust að með fyrirspurnir sínar á íbúafundinum er bent á netfangið betrireykjavik@ibuar.is og verður þeim erindum komið áleiðis til viðkomandi sviða.

Ítarefni:

Ræða borgarstjóra

Fundargerð í Háaleitis- og Bústaðahverfi