Litagleði, ljós og hreyfing á setningu Vetrarhátíðar

Vetrarhátíð í Reykjavík var sett með pompi og prakt við Hallgrímskirkju í gærkvöldi með glæsilegu opnunaratriði. Verkið „Rafmögnuð náttúra“ var opnunaratriði Vetrarhátíðar en höfundur þess er Marcos Zotes, arkitekt. Fjöldi fólks lagði leið sína upp á Skólavörðuholt þrátt fyrir mikið hvassviðri og rigningu til þess að fylgjast með gjörningnum. Jón Gnarr borgarstjóri opnaði formlega Vetrarhátíð og sagði í ræðu sinni að Vetrarhátíð væri kærkomin tilbreyting fyrir borgarbúa, boðið yrði upp á glæsilega dagskrá sem kæmi til með að lýsa upp svartasta skammdegið með menningu og listum, orku og atvinnulífi, félags- og skólastarfi, útivist og íþróttum, umhverfi og sögu. Að lokinni setningu var gjörningurinn frumsýndur en um er að ræða 15 mínútna langt myndbandsverk sem var varpað á veggi Hallgrímskirkjuturns sem umbreytist í stórbrotna upplifun ljóss, lita og hreyfingar. Verkið er byggt á frumefnunum fjórum - vatni, jörð, eldi og vindi og inniheldur upptökur frá geimskipi NASA og SDO af sólargangi, dagana rétt fyrir Vetrarhátíðina. Undir verkinu lék hljómsveitin For a Minor Reflection. Verkinu verður varpað á Hallgrímskirkju alla dagana sem Vetrarhátíð stendur. Sjá myndir af gjörningnum „Rafmögnuð náttúra“ á Facebook síðu Vetrarhátíðar.