Fullt hús á fundi um skipulagsmál í Vesturbæ

Fundaröðin Borg fyrir fólk – Betri hverfi hófst í gær með fundi í Hagaskóla. Yfir 60 manns mættu á fundinn, kynntu sér nýtt aðalskipulag og ræddu skipulagsmál Vesturbæjar vítt og breitt.

Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir fundaröðinni en á fundunum er fjallað um Aðalskipulag 2010 – 2030 og hvernig það snertir einstök hverfi í borginni.  

Ólöf Örvarsdóttir, skipulagsstjóri, bauð fundargesti velkomna, og sagði m.a. ekki væri hægt að vinna hverfisskipulag nema í samvinnu við íbúana.  

Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs, steig því næst í pontu og fór yfir helstu áherslur aðalskipulagsins. Í máli hans kom fram að áætlað er að borgin haldi áfram að vaxa og vöxturinn verði sambærilegur við það sem verið hefur sl. 20 ár. Gert er ráð fyrir að Reykvíkingum fjölgi um 25.000 til ársins 2030 og 14.500 nýjar íbúðir verði byggðar í Reykjavík á tímabilinu. Horfið er frá þeirri stefnu að byggja ný úthverfi en í staðinn verður horft til þess að þétta byggð í eldri hverfum. Auk þess mun byggð rísa í Vatnsmýrinni. Gert er ráð fyrir að hægt verði að byggja 400.000 fermetra í Vatnsmýri óháð staðsetningu flugvallar. Þá er gert ráð fyrir að milljón fermetrar af nýju atvinnuhúsnæði verði reistir á tímabilinu. Þessar framkvæmdir munu kalla á 18.000 ný störf.  

„Skipulagið er eins og eimreið, borgin heldur áfram að stækka og íbúum að fjölga,“ sagði Páll.
Hann sagði ennfremur að í nýju aðalskipulagi væri lögð áhersla á að nýta innviði borgarinnar sem best. Með þéttingu byggðar væri hægt að nýta lagnakerfi, skóla og samgöngukerfi borgarinnar enn betur. Lögð væri áhersla á að íbúar hefðu gott aðgengi að grænum svæðum og góðum útivistarsvæðum – Reykjavík ætti að verða græn borg í sem víðustum skilningi þess orðs. Þess vegna væri lögð áhersla á vistvænar samgöngur, betri göngu- og hjólaleiðir og almenningssamgöngur en minni á einkabílinn sem tekið hefði mikið pláss í Reykjavík.  

Í nýju aðalskipulagi er sett ákveðnari stefna um hæðir húsa og að byggingar á lykil þróunarsvæðum verði 4 – 5 hæðir. Þá verður meiri áhersla lögð á byggingu leiguhúsnæðis, bæði til að leysa ákveðinn bráðavanda í húsnæðismálum en einnig til þess að ungt fólk geti komist að heiman og hafið búskap.  

Borg fyrir fólk í Vesturbæ  

Haraldur Sigurðsson, yfirskipulagsfræðingur hjá skipulags- og byggingarsviði kynnti síðan hugmyndir skipulagsins varðandi Vesturbæ. Hann sagði það nýbreytni að setja aðalskipulagið fram hverfi fyrir hverfi og kynna það í hverjum borgarhluta og vísaði til funda sem haldnir voru á árinu 2009 sem gefið hefðu góða raun. Markmiðið með fundaröðinni nú væri að kalla á enn fleiri hugmyndir íbúa í hverfum Reykjavíkur.

Haraldur rakti meginmarkmið aðalskipulagi hverfanna en þau væru að efla vistvænar samgöngur, viðhalda grænum svæðum í borginni, þannig að 40% lands innan þéttbýlis verði opin svæði til útivistar, afþreyingar og leikja. Þá væri mikilvægt að efla kjarnana í hverfunum. Þegar ný byggð væri skipulögð væri mikilvægt að hún styrkti þungamiðju hverfisins.

Haraldur fór síðan yfir lykilbreytingar á skipulagi Vesturbæjar. Stærsta breytingin er sú að horfið verður frá áður skipulagðri landfyllingu við Ánanaust. Stokkur við Mýrargötu verður heldur ekki byggður. Þá er gert ráð fyrir að byggingarmagn á svokölluðu slippasvæði verði aukið auk þess sem byggðin teygi sig enn frekar út í Örfirisey.

Í aðalskipulagi hefur framsetningu verið breytt þannig að nú sést hvar svokallaðir hverfiskjarnar eru. Í Vesturbæ er slíkur kjarni í kringum Melabúðina. Gert er ráð fyrir að íbúum í Vesturbær geti fjölgað um 1.100 á tímabilinu. Þá eru skilgreindar aðalgötur í hverfinu.

Eftir að erindum lauk settust fundargestir niður við borð þar sem þeir gátu skoðað kort og komið að hugmyndum sínum í nokkrum málaflokkum.  

Þeir eru:  

  • Þétting byggðar innan hverfis,
  • Samgöngur,
  • Kjarnar innan hverfis,
  • Almenningsrými og opin svæði,
  • Hjartans mál.

Fjölmargar hugmyndir voru settar fram á fundinum og munu þær verða skoðaðar ítarlega af borgaryfirvöldum.

Næsti fundur í fundaröðinni Borg fyrir fólk – Betri Hverfi verður í dag og fjallar hann um hverfin í kringum Laugardal. Fundurinn er haldinn í Laugardalslaug og hefst klukkan 17.

Reykjavíkurborg hvetur Reykvíkinga til að mæta á fundina og kynna sér skipulag í hverfum borgarinnar.