Akstursþjónusta aldraðra – hækkun viðmiðunartekna og samnýting ferða

Breytingar verða á ferðaþjónustu aldraðra í maí sem felast í því að fleiri gætu átt rétt á niðurgreiðslu vegna ferðakostnaðar.  Tekjuviðmið hækka um 5% auk þess sem aldraðir geta nú minnkað ferðakostnað með samnýtingu bíla.

Gjald vegna hverrar ferðar er óbreytt, eða kr. 1000.  Gjaldskrá breytist þannig að þeir sem eru með allt að 5% umfram viðmiðunartekjur TR geta sótt um lækkun ferðagjalds á þjónustumiðstöð líkt og þeir sem hafa tekjur undir viðmiðum TR. Þessu ákvæði er ætlað að koma til móts við aldraða sem hafa lágar umframtekjur. Þeir sem fá samþykkta lækkun gjalds greiða almennt fargjald hjá Strætó fyrir allt að 16 ferðir í hverjum mánuði eða 350 krónur.

Í gjaldskrá akstursþjónustunnar verður nú líka hvati til að samnýta ferðir þannig að notendur greiða lægra gjald ef fleiri en einn notandi ferðast saman í bíl. Hlutaðeigandi einstaklingar ákveða fyrirfram að samnýta ferðina og tilkynna það um leið og bíllinn er pantaður. Hver farþegi greiðir þá samsvarandi upphæð og almennt fargjald Strætó bs. er á hverjum tíma. Slík samnýting stuðlar að hagkvæmni fyrir notendur, umhverfi og rekstraraðila og samræmist stefnu borgarinnar í umhverfismálum.