Borgin og Ás styrktarfélag skrifa undir þjónustusamning

Undirritaður hefur verið rúmlega tveggja milljarða samningur Reykjavíkurborgar við Ás styrktarfélag um þjónustu við fatlað fólk með þroskahömlun og skyldar raskanir. Ás styrktarfélag er sjálfseignarstofnun sem hefur í hálfa öld þróað sérstöðu í þjónustu við fatlað fólk, bæði hvað varðar sérþekkingu, uppbyggingu eigin húsnæðis og þróun nýrra þjónustuúrræða. 

Samningurinn er til þriggja ára. Um er að ræða 107,5 atvinnu- og dagþjónusturými, 40 rými í sértækum búseturúrræðum og 5 sérhæfð þjónusturými fyrir leikskólabörn.  Markmið samningsins er að veita fötluðu fólki stuðning til sjálfstæðis og lífsgæða sem stuðlar að því að það fái notið sín sem fullgildir þegnar samfélagsins á forsendum eigin getu og njóti virðingar. Að baki samningsins er þjónustulýsing þar sem nánar er kveðið á um þjónustu þá sem veitt er, og má þar einkum nefna samþætta og heildstæða þjónustu  í sértækum húsnæðisúrræðum um stuðning inn á heimili og samfélagslega þátttöku á eigin forsendum.  Ennfremur  virkni-, verkefna- og vinnumiðaða stoðþjónustu og í sérhæfðri þjónustu við fötluð börn. 

Reykjavíkurborg og Ás styrktarfélag hafa átt farsælt og gott samstarf og nýr samningur er vísir að frekara starfi í þágu fatlaðs fólks.