Endurhæfing í Virknihúsi

Í Virknihúsi getur fólk farið margþættar leiðir í endurhæfingu fyrir þátttöku á vinnumarkaði eða í átt til aukinnar virkni og þátttöku. Markmiðið er alltaf að bæta lífsgæði fólks og auka tækifæri þess í lífinu með áherslu á sjálfsstyrkingu, nám og bata. 

Hvernig kemst ég í endurhæfingu?

Flest endurhæfingarúrræðin eru fyrir fólk sem er með félagslega ráðgjöf hjá Reykjavíkurborg. Þú hefur samband við þjónustumiðstöð til að biðja um félagslega ráðgjöf. Ráðgjafinn þinn metur síðan í samráði við þig hvaða úrræði henta best þínum þörfum. 

Atvinnu- og virknimiðlun (AVM)

Vinnufærir einstaklingar sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu geta fengið aðstoð frá atvinnu- og virknimiðlun í Virknihúsi.  Markmið Atvinnu- og virknimiðlunar er að efla, hvetja, fræða og styðja einstaklinga við atvinnuleit.  Atvinnu- og virknimiðlun veitir einstaklingsráðgjöf þar sem áhersla er m.a. lögð á ferilskráargerð og undirbúning fyrir atvinnuviðtal. Atvinnu- og virknimiðlun stendur einnig fyrir námskeiðum á íslensku og ensku sem innihalda efni til að efla einstaklinga við atvinnuleit og styrkja þá persónulega.

IPS atvinnuráðgjöf

IPS (Individual Placement and Support) atvinnuráðgjöf er gagnreynd aðferð í starfsendurhæfingu þar sem markmiðið er  að bæta stöðu fólks með því að aðstoða þau sem hafa áhuga á að starfa á almennum vinnumarkaði við að komast í samkeppnishæf störf. Boðið er upp á markvissa aðstoð við atvinnuleit og stuðning þegar í starf er komið. IPS atvinnuráðgjöf leggur áherslu á einstaklingsmiðaða nálgun í störfum sínum sem felur í sér viðtöl, ráðgjöf og eftirfylgni.

Grettistak

Átján mánaða endurhæfing fyrir fólk með langvarandi félagslegan vanda vegna vímuefnaneyslu. Markmiðið er að styðja fólk til sjálfshjálpar með þátttöku í námi eða atvinnu. Áhersla á bata, sjálfsstyrkingu, aukna félagslega færni og almenna virkni í samfélaginu. Að auki er stuðningur til þátttöku í nám, vinnu eða aðra virkni.

TINNA

Úrræði fyrir einstæða foreldra á aldursbilinu 18-34 ára sem eru með fjárhagsaðstoð, endurhæfingarlífeyri eða örorku. Helsta markmið er að fólk auki lífsgæði sín og barna sinna. Áætlun er gerð í samræmi við einstaklinginn með það að markmiði að auka sjálfsstyrkingu, virkni og þátttöku í leik og starfi. Lengd tímabils er einstaklingsbundið.

Bataskóli Íslands

Bataskólinn er fyrir 18 ára og eldri einstaklinga sem eru með geðrænar áskoranir. Boðið er upp á fjölbreytt námskeið sem samin eru og flutt af fólki með mismunandi bakgrunn. Bataskólinn starfar eftir batamiðaðri hugmyndafræði. Hægt er að sækja beint um nám í Bataskólanum án þess að vera með félagslega ráðgjöf frá Reykjavíkurborg.

Hugarafl

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar er með samning við Hugarafl sem þjónustar einstaklinga með fjárhagsaðstoð og þurfa á endurhæfingu að halda vegna geðrænna áskorana.