Mat á skóla- og frístundastarfi

Mikilvægt hlutverk skrifstofu skóla- og frístundasviðs er að sinna ytra mati og eftirliti með gæðum í skólum og frístundastarfi þannig að það leiði til umbóta. Skrifstofa skóla- og frístundasviðs sinnir ytra mati og styður við innra mat starfsstaðanna.

Ytra mat

Í ytra mati er gagna aflað með margvíslegum hætti og út frá þeim er dregin ályktun um starfsemina út frá gæðaviðmiðum. Ytra mat skóla- og frístundasviðs hefur það að markmiði að veita upplýsingar um skóla- og frístundastarf og að auka gæði náms í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi.

Til grundvallar ytra matinu liggja fyrirfram skilgreind viðmið um gæði í leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfi. Starfsemin er metin með vettvangsheimsóknum, greiningu gagna, könnunum og viðtölum við stjórnendur, starfsfólk, börn og foreldra.

Matið er fyrst og fremst leiðsagnarmat þar sem dregið er fram það sem vel er gert í skólanum og bent á það sem betur má fara sem tækifæri til umbóta.

Leikskóli

Ytra mat á leikskólum hófst vorið 2013. Meginþættir í matinu eru stjórnun, uppeldi og kennsla, mannauður, skólabragur og innra mat. Í lok árs 2018 höfðu tæplega 50% leikskóla í Reykjavík verið metnir.

Hér má sjá skýrslur og umbótaáætlanir leikskóla ásamt gögnum sem nýtast við ytra og innra mat, s.s. viðmið um gæði, matsblöð, gátlista, form umbótaáætlunnar og leiðbeiningar um mat og matsaðferðir.

Grunnskóli

Heildarmat var gert á öllum grunnskólum í Reykjavík frá 2007 til 2013. Meginþættir í heildarmatinu voru skólastarf, verklag, mannauður og fjármál. Í lok árs 2013 höfðu allir grunnskólar í Reykjavík verið metnir einu sinni.

Annar matshringur ytra mats í grunnskólum hófst haustið 2014. Meginþættir í matinu eru stjórnun, nám og kennsla og innra mat. Í lok árs 2018 höfðu um 40% grunnskóla í Reykjavík verið metnir í annað sinn út frá sömu viðmiðum og í fyrri matshring.

Haustið 2019 voru tekin í notkun ný og endurskoðuð gæðaviðmið. Huga þarf að því að prófíll/litamynd skóla er ekki samanburðarhæf milli þeirra skóla sem metnir eru fyrir og eftir 2019 þar sem nýtt matstæki og nýr litaskali hefur verið tekin í notkun.   

Frístundastarf

Ytra mat á frístundastarfi hófst haustið 2014. Meginþættir í matinu eru stjórnun, frístundastarf, mannauður, staðarbragur og innra mat. Í janúar 2020 var búið að meta a.m.k. eitt frístundaheimili og eina félagsmiðstöð í hverju hverfi borgarinnar eða 10 frístundaheimili (þar af 3 rekin af grunnskólum) og 5 félagsmiðstöðvar.

Hér má sjá skýrslur og umbótaáætlanir í frístundastarfi ásamt gögnum sem nýtast við ytra og innra mat, s.s. viðmið um gæði, matsblöð, gátlista, form umbótaáætlunnar og leiðbeiningar um mat og matsaðferðir.