Innflutningur matvæla

Á þessari síðu er að finna upplýsingar fyrir þá aðila sem hyggjast flytja inn matvæli hingað til lands og selja til smásala eða stóreldhúsa (heildverslanir með matvæli).

Starfsleyfisskyld starfsemi

Almennt er dreifing matvæla, þ.m.t. innflutningur, útflutningur og sala, starfsleyfisskyld starfsemi samkvæmt lögum um matvæli.  Matvælafyrirtæki, þ.m.t. einstaklingar, sem hyggjast starfrækja dreifingu matvæla af einhverju tagi innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur skulu sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur áður en starfsemi hefst.  Óheimilt er að reka starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út samkvæmt lögum.

Leiðbeiningar um innflutning á matvælum

Fæðubótarefni og áfengi

Vakin er sérstök athygli á að fæðubótarefni og áfengi teljast matvæli í skilningi matvælalaga.  Vítamín og steinefni sem seld eru forpökkuð í smásölu ein og sér eða blönduð saman (t.d. fjölvítamín) teljast til fæðubótarefna.

Ábyrgð

Stjórnandi matvælafyrirtækisins ber ábyrgð á að matvælin sem matvælafyrirtækið framleiðir og/eða dreifir séu örugg og að þau uppfylli ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, og reglugerða sem settar eru með stoð í lögunum, s.s. hvað varðar merkingar, fullyrðingar og innihaldsefni.

Mikilvægt er að stjórnandi matvælafyrirtækis geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem matvælalöggjöfin setur á herðar hans.