Hreinsum saman

Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að taka höndum saman við að hreinsa til í borginni eftir veturinn og taka á móti vorinu með bros á vör. Kallað er eftir auknu frumkvæði og ábyrgð borgarbúa. Borgin hefur árum saman staðið fyrir hreinsunarátaki á vorin, nú síðast undir nafninu Hreinsum saman.

Hvetjum til dáða með eigin frumkvæði

Með því að hreinsa rusl, snyrta tré og runna í garðinum okkar hvetjum við aðra til að taka til hendinni. Stígum skrefinu lengra og tínum rusl utan girðingar, við næsta göngustíg eða á nálægu útivistarsvæði. Hreinsunardagur í götunni eða í hverfinu býður upp á skemmtilega samveru. Notum hugmyndaflugið og gerum tiltektina að skemmtilegu verkefni. Reykjavíkurborg tekur þátt í stóra plokkdeginum sem haldinn er í lok apríl ár hvert og hvetur íbúa til að hreinsa saman á þessum degi. Það er Plokk á Íslandi sem stendur fyrir stóra plokkdeginum og hefur gert það árlega frá árinu 2018.

Plokk á Íslandi

Plokkarar eru öflugur hópur á Íslandi og eru með er með sinn eigin hóp á Facebook en meðlimir eru í kringum 7.500 manns þannig að það eru margir sem láta sig varða umhverfi sitt. Í hópnum deila meðlimir sigrum og áskorunum í umhverfismálum og þar hvetja meðlimir hvor aðra til dáða og birta myndir af rusli sem tekið hefur verið úr náttúrunni.

 

Plokkarar hafa það sem áhugamál að fara um svæði og taka upp, eða plokka, plast, pappa og annað rusl sem fellið hefur til frá íbúum, framkvæmdum eða öðru, svo bæði náttúran og borgarumhverfi líta betur út á eftir.

 

Að lokum má minna á að fyrir utan plokkstöngina eða góða hanska er glær plastpoki nauðsynlegur til verksins ef fjölnota pokar eru ekki notaðir en einnig er mikilvægt að binda vel fyrir til að innsigla góðan árangur plokksins. Hægt er að skila ruslinu á endurvinnslustöðvar Sorpu.

Með allt árið

Starfsfólk hverfastöðva Reykjavíkurborgar tekur þátt allt árið meðal annars með því að fjarlægja poka frá plokkurum og þiggur einnig ábendingar um fulla ruslastampa en mikilvægt er að troða ekki í tunnur til að forðast að ruslið fjúki burt. Best er að senda þær á ábendingavef borgarinnar.

Garðaúrgangur

Vakin er athygli á því að endurvinnslustöðvar Sorpu taka við garðaúrgangi og greinaafklippum íbúum að kostnaðarlausu. Margir garðeigendur hafa komið sér upp aðstöðu til moltugerðar og nýtist garðúrgangurinn vel hjá þeim. Hvatt er til að garðaúrgangur sé látinn brotna niður eðlilega í garðinum eða komið til Sorpu.

Hvað með götusópun?

Megináherslan í hreinsun gatna og gönguleiða er á vorin og fram á sumar.