Yngstu skákstúlkurnar úr Rimaskóla komu, sáu og sigruðu

Skóli og frístund

""

Rimaskólastúlkur urðu Íslandsmeistarar á móti grunnskólanna áttunda árið í röð. 

Íslandsmót grunnskóla, í stúlknaflokki, var haldið í Rimaskóla um liðna helgi. Alveg frá 2011 hefur A-sveit Rimaskóla unnið mótið og á því varð engin breyting nú. Rimaskólastúlkur unnu allar sínar sex viðureignir og fengu 20 vinninga af 24 mögulegum. Fyrir sveitinni fór Nansý Davíðsdóttir ásamt bekkjarsystrum sínum í 10. bekk.

En það voru yngstu skákstúlkur skólans sem stálu senunni því í flokki 1. og 2. bekkjar komu Rimaskólastúlkur, sáu og sigruðu alla mótherja sína með yfirburðum og fengu 18,5 vinninga af 20 mögulegum. Í þessari efnilegu skásveit eru þær Svandís María, Nikola og Vigdís Lilja í 2. bekk og Adda Sif í 1. bekk. Stelpurnar eru búnar að æfa vel í vetur hjá Birni Ívari skákkennara Rimaskóla og einnig sækja þær skákæfingar hjá Fjölni alla miðvikudaga. Það er gífurlega mikill áhugi á skák meðal stúlkna í Rimaskóla enda unnið markvisst út frá því að skákíþróttin höfði ekki síður til stúlkna en stráka.