Vöxtur og vaxtarverkir – Öskudagsráðstefna 2017

Skóli og frístund

""

Vöxtur og vaxtarverkir er yfirskrift Öskudagsráðstefnu grunnskólakennara í borginni sem haldin verður 1. mars. Á ráðstefnunni, sem haldin verður á Hilton Reykjavík Nordica hóteli, verður fjallað um hvernig fjölbreytt nám stuðlar að vexti allra nemenda.

Aðalfyrirlesari Öskudagsráðstefnunnar er Shirley Clarke, en hún hóf feril sinn sem grunnskólakennari í London og gerðist í kjölfarið kennsluráðgjafi og loks fyrirlesari og rannsakandi.  Hún er nú sjálfstætt starfandi ráðgjafi á alþjóðavísu, heldur námskeið, stundar rannsóknir og hefur skrifað fjölda bóka. Megináhersla Shirley Clarke er á leiðsagnarmat (formative assessment) enda telur hún að með því sé stuðlað að forsendum náms;  að efla börn svo þau verði öruggir nemendur sem vita hvernig á að læra. Segja má að Shirley hafi byggt brú á milli fræðaheimsins og skólastofunnar ekki síst með góðu samstarfi við fjölda kennara m.a. með þátttöku starfendarannsóknum. Bækur hennar hafa notið mikilla vinsælda meðal kennara og námskeið hennar eru afar vel sótt og þykja hagnýt. Shirley Clarke er heiðursdoktor við Háskólinn í Greenwich

Fimm málstofur verða í boði á ráðstefnunni þar sem fjallað verður um vendikennslu, tækni og miðlun í kennslustofunni, lestraráhuga, nýja nálgun í kennslu unglinga og sjálfsmynd nemenda.

Þá verða hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs  vegna grunnskólastarfs afhent á ráðstefnunni. Minningarverðlaun Arthurs Morthens verða einnig afhent, en þau eru veitt einum grunnskóla í Reykjavík fyrir störf í þágu stefnu um skóla án aðgreiningar. Er þetta í fyrsta skipti sem þessi verðlaun eru veitt. Skráningu er lokið og hafa hátt í sjö hundruð grunnskólakennarar boðað komu sína á Öskudagsráðstefnuna. 

DAGSKRÁ

13:00 Setning – Jónína Ómarsdóttir, kennari í Rimaskóla
Tónlistaratriði – Kristinn Svavarsson aðstoðarskólastjóri og Harpa Þorvaldsdóttir kennari, bæði í Laugarnesskóla
Ávarp borgarstjóra – Dagur B. Eggertsson
Aðalfyrirlestur – How do we help students to grow? Shirley Clarke sérfræðingur í leiðsagnarmati frá Bretlandi flytur erindi um leiðsagnarmat, en hún hefur bæði skrifað bækur og haldið fjölda erinda um efnið.
Viðurkenningar afhentar

-          Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs 2017
-          Minningarverðlaun Arthurs Morthens 2017

Samantekt Helgi Grímsson sviðsstjóri SFS og Elva María Birgisdóttir og Auðun Bergsson nemendur í Foldaskóla

14:40 Kaffihlé

15:10- 16:30 Málstofur

1.      Vendikennsla í náttúrufræði

Fyrirlesari: Gauti Eiríksson, kennari í Álftanesskóla
Í Álftanesskóla hefur verið notast við vendikennslu í náttúrufræði á elsta stiginu frá árinu 2013.  Í þessari málstofu verður fjallað um hvernig það hefur gengið, sagt frá viðhorfskönnunum sem gerðar hafa verið og útskýrt hvernig myndböndin eru gerð.
Vendikennsla er kennsluaðferð sem á erindi á öll skólastig. Það er einfaldara en flestir halda að innleiða vendikennslu inn í sína kennslu að einhverju leiti. Við ætlum að ræða hvernig auðveldast er að gera það og hver ávinningurinn er.

2.      Reykjavík 360°  - Tækni, tjáning og miðlun
Fyrirlesarar: Björgvin Ívar Guðbrandsson kennari í Langholtsskóla, Erla Stefánsdóttir  forstöðumaður Mixtúru , margmiðlunarveri SFS og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir  verkefnastjóri á skrifstofu SFS.
Í málstofunni verður í orðsins fyllstu merkingu farið á flug og fjallað um fjölbreytta tækni, tjáningu og miðlum í skólastarfi. Ýmsar leiðir til að nýta skjávarpann í kennslustofunni með lifandi flutningi, skjákynningum og myndrænni framsetningu verða til umfjöllunar. Því verða kynnt til sögunnar verkfæri og vinnulag til að virkja nemendur og  brjóta upp og skipuleggja kennslutíma.  Athyglinni verður beint að margvíslegum verkefnum sem unnin eru víða í borginni sem og lánsbúnaði, aðstoð og námskeiðum sem Mixtúra býður upp á .

3.      Uppáhalds bókin mín er …  - Að kveikja áhuga á lestri
Fyrirlesarar: Ráðgjafar Miðju máls og læsis, Arnheiður Helgadóttir og Dröfn Rafnsdóttir
Hvernig gerum við nemendur okkar að bókaormum og lestrarhestum?
Í málstofunni verða settar fram hugmyndir og leiðir sem geta eflt áhuga nemenda á lestir. Kynntar verða m.a. hugmyndir Steven L. Layne. Hvernig má vinna í bekk? Hvernig kennarar geta verið góðar fyrirmyndir? Hvernig heilt skólasamfélag getur unnið saman að þessu markmiði? Þátttakendur fá tækifæri á að setja sig í spor nemenda.

4.      Ný nálgun í kennslu í unglinga
Fyrirlesarar: Hólmfríður G. Guðjónsdóttir skólastjóri og Anna María Þorkelsdóttir kennari og verkefnastjóri, báðar í Hólabrekkuskóla
Skólastjórnendur og kennarar í Hólabrekkuskóla hafa tekið fyrstu skref í endurskipulagningu á fyrirkomulagi kennslu í unglingadeild með mjög góðum árangri. Þar eru allir þættir lykilhæfni aðalnámskrár hafðir til grundvallar vinnu nemenda og hún líka tengd inn á hæfniviðmið einstakra greina, samþætt fög og aðra þætti sem nemendur hafa áhuga á að tengja betur við verkefnin sín.

5. Sjálfsmynd nemenda
Fyrirlesari Elva Björk Ágústsdóttir sálfræðingur.
Fjallað verður um sjálfsmynd og sjálfstraust barna og unglinga. Rætt verður um þá þætti sem móta sjálfsmynd þeirra, þær breytingar sem verða á unglingsárum og þann kynjamun sem finna má á sjálfsmynd og líkamsmynd unglinga. Unnin verða stutt verkefni sem hægt er að nýta í starfi með börnum og unglingum.

Sjá dagskrá ráðstefnunnar til útprentunar.