Vorhreinsun í fullum gangi

Umhverfi

""

Vorhreinsun er komin á fullt skrið í borginni en byrjað er á því að sópa allar skilgreindar hjólaleiðir í Reykjavík þvert á borgarlandið. Næst eru algengustu gönguleiðir sópaðar í allri borginni. Þá verður farið hverfi úr hverfi með sópum og þvotti. Undanfarið hefur garðyrkjufólk borgarinnar unnið að runnaklippingum og snyrtingu runnabeða og teymi á vegum hverfastöðva hafa verið við ýmis konar snyrtingu í miðborginni. Allt miðar þetta að því að hafa Reykjavík fallega þegar sumarið gengur í garð.

Samkvæmt upplýsingum frá hreinsunardeild borgarinnar er staðan eftirfarandi í dag.

Búið er að sópa allar skilgreindar hjólaleiðir.  Þær eiga að vera í góðu lagi.  Byrjað var að sópa þessar leiðir fyrir fjórum vikum þegar færi gafst vegna veðurs. 

Ekki var hægt að hefja vorhreinsun af krafti fyrr en í síðustu viku. Nú er unnið að því að sópa gönguleiðir en það verk er nokkuð á eftir áætlun vegna þess að veður hefur hamlað. Hreinsun er því um viku á eftir áætlun. Veðurspá er ekki góð fyrir næstu daga, spáð er frosti og jafnvel snjókomu sem gæti haft áhrif á verkið.  Nú þegar er búið að sópa um 40% gönguleiða í forgangi.

Búið er að forsópa allar götur í Grafarvogi og allar stéttar utan Víkurhverfis hafa verið sópaðar.  Ætlunin var að hefja þvott í Grafarvogi í næstu viku, en það mun að öllum líkindum frestast um eina viku þar sem það á að frysta.  

Forsópun gatna er hafin í Grafarholti og í hverfi 107.

Hluti stofnanalóða var hreinsaður um síðustu helgi og var farið eftir óskum skólastjórnenda, enda verða samkomur á þeim skólalóðum á sumardaginn fyrsta.

Björn Ingvarsson, deildarstjóri hjá þjónustumiðstöð borgarlandsins vill minna borgarbúa á að vorhreinsun í Reykjavík tekur um tvo mánuði.  Reynt er að forgangsraða þannig að sem flestir verði sáttir. „Við erum þrátt fyrir allt í betra standi hvað varðar helstu göngu- og hjólastíga en við vorum í fyrra, en þá var ekki búið að ljúka sópun allra hjólastíga fyrir „hjólað í vinnuna“ átakið, enda var þá allt tekið hverfaskipt.  Vonandi næst að klára alla helstu stíga áður en það átak byrjar í ár, en ég lofa engu. Veðrið gæti enn sett strik í reikninginn“, segir Björn.

Borgarbúar eru hvattir til þess að leggja hönd á plóginn og taka til í sínu nánasta umhverfi í vor. Ef allir leggja eitthvað smávegis á vogarskálarnar verður útkoman hrein borg með fögur torg.