Vinsamleg borg fyrir börn og unglinga

Velferð Umhverfi

""
Fundur um unga fólkið og skipulagsmál þriðjudaginn 10. nóvember kl. 20 á Kjarvalsstöðum um vinsamlega borg fyrir börn og unglinga.
Hvernig má skipuleggja borg fyrir börn og unglinga? - er spurning sem glímt verður við í fundarröð sem umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir ásamt Hjálmari Sveinssyni, formanni umhverfis- og skipulagsráðs um umhverfis- og skipulagsmál. Fundurinn er þriðjudaginn 10. nóvember kl. 20 á Kjarvalsstöðum og eru allir velkomnir.

Hvernig má auka leikgleðina í borgarrýminu?

 
Sagt hefur verið að borg sem er vinsamleg börnum sé jafnframt góð fyrir alla aðra. Aðbúnaður barna og unglinga er því gott viðmið í borgum. Þau aka til dæmis ekki bifreiðum, fara gjarnan í strætó og hjóla eða ganga milli staða. Þeim hentar ágætlega að búa í þéttri byggð þar sem kaupmaðurinn er á horninu, skólinn í grennd og helstu viðkomustaðir í heimahverfinu. Börn hafa einnig mikla þörf fyrir hreyfingu og leik og umhverfi sem virkjar sköpunargleðina getur ýtt undir andlegan og líkamlegan þroska þeirra. En hvernig á að skipuleggja borg fyrir börn þannig að hún verði skemmtileg, skapandi og örugg? Hvernig má auka leikgleðina í borgarrýminu?
 
Borg, börn og unglingar verða í öndvegi á fundinum sem er bæði fyrir áhuga- og fagfólk um vinsamlega borg. Hjálmar Sveinsson, Halldóra Hrólfsdóttir skipulagsfræðingur, Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt og Trausti Jónsson tómstunda- og félagsmálafræðingur taka til máls en þau hafa öll reynslu og þekkingu á því að taka þátt í að móta umhverfið út frá þörfum barna og ungmenna. Markmiðið er að efla umræðu um málið og safna sjónarmiðum.

Gangrýnin og hressileg umræða

 
Markmiðið með fundarröðinni er að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi. Leitað er eftir gagnrýnni og hressilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni. Ekki er boðið upp á átök milli andstæðra sjónarmiða heldur felst aðferðin í því að greina og opna fyrir samræður og möguleika á áframhaldandi umræður. Fundirnir hafa verið mjög vel sóttir enda rætt á mannamáli út frá skemmtilegum sjónarhornum um brýn efni.
 
Allir velkomnir, rjúkandi kaffi á könnunni.