Vinningshafar Nýtniviku gerðu gott úr hlutum

Umhverfi

""

Lengjum líftíma hluta og gerum gott úr hlutunum var þema Nýtniviku í ár. Fimm kjarnakonur eru vinningshafar í leik Nýtniviku í ár en þær eiga það allar sameiginlegt að hafa gert gott úr hlutunum.

Konurnar eru; Kristín Erlendsdóttir með þrívíðar myndir úr ýmsum afgöngum, Margrét Gunnarsdóttir, sem bætir og stagar flíkur, Lóa Kristín Guðmundsdóttir sem býr til kertastjaka úr grískum jógúrtkrukkum, Ísabella Leifsdóttir, sem notar gamla muni og kerti og breytir í ilmkerti og Þórey Hannesdóttir sem notar gamlar kommóðuskúffur sem hillur.

Ekki var hægt að gera upp á milli innsendra hugmynda en fimm þátttakendur voru dregnir úr hatti en það var Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri Umhverfis- og skipulagssviðs, sem dró um vinningshafana. Hver þeirra fær menningar- og sundkort frá Reykjavíkurborg.

Leikurinn gekk út  á að safna hugmyndum að því hvernig er best að viðhalda og gera við hluti í stað þess að kaupa nýja.  Allir gátu tekið þátt og sett inn mynd sem lýsti viðhaldi eða viðgerð á hlut sem hefði annars verið fleygt og nýr komið í hans stað.

Markmið vikunnar er að draga úr óþarfa sóun og hvetja fólk til að nýta hluti betur. Þetta er í sjötta sinn sem Nýtnivika fer fram hér á landi og þema vikunnar að þessu sinni er að gera við og viðhalda hlutum í stað þess að kaupa nýja.

Reykjavíkurborg, Fenúr og Umhverfisstofnun, sem stóðu að Nýtniviku, hvetja alla til að nýta hlutina betur hvort sem er með því að gera við þá eða með öðrum hætti. Ótal margir aðilar bjóða þjónustu sem getur lengt líftíma hluta, s.s. skósmiðir, saumastofur, bólstrarar, töskuviðgerðaþjónusta og raftækjaviðgerðaþjónusta.

Hvernig gerum við gott úr hlutum?

Meira á FB-viðburði vikunnar