Viljayfirlýsing um uppbyggingu á svæði KR

Íþróttir og útivist Skipulagsmál

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri  og Gylfi Dalmann Aðalsteinsson formaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á KR svæðinu við Frostaskjól.

Viljayfirlýsingin gengur út á það að umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar að hefja formlega deiliskipulagsvinnu við svæðið í samstarfi við KR. Reykjavíkurborg kostar vinnu við skipulagið sem síðan verður hluti af uppbyggingarkostnaði.

Nokkur aðdragandi hefur verið að viljayfirlýsingunni þar sem borgarstjóri skipaði starfshóp árið 2016 um skipulags- og uppbyggingarmál Knattspyrnufélags Reykjavíkur. Hópurinn skilaði svo áfangaskýrslu 1. nóvember síðastliðinn þar sem gert er ráð fyrir 32 þúsund fermetrum í heildarumfangi bygginga. Þar af verður heildaraukning á aðstöðu fyrir KR allt að 12 þúsund fermetrar. Tæpir 10 þúsund fermetrar verða til fyrir íbúðir og um 10 þúsund fermetrar undir verslun og þjónustu. Þá er gert er ráð fyrir 350 bílastæðum. Heildarumfang þeirra bygginga sem yrðu í Frostaskjóli eftir breytingar yrðu um 35.800 fermetrar með þeim byggingum sem fyrir eru á svæðinu.

Landið sem um ræðir er í eigu KR. Samkvæmt viljayfirlýsingunni eru Reykjavíkurborg og KR sammála um að virðisaukinn sem fæst vegna aukins byggingarmagns renni til uppbyggingar fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf í Vesturbæ á vegum KR. KR verður svo eigandi bygginganna sem munu hýsa starf félagsins. Eftir að deiliskipulag verður samþykkt er gert ráð fyrir að gengið verði frá formlegum samningi á milli Reykjavíkurborgar og KR um framkvæmdina.

„Uppbygging í Frostaskjóli lýsir framsýni og metnaði KR-inga fyrir hverfinu og góðri þjónustu við börnin í Vesturbænum. Ég vil þakka KR-ingum fyrir frumkvæðið og samstarfið hingað til og er ég ekki í vafa um að ef við vöndum til verka við þróun hugmyndanna þá munu þær án efa koma til með að styrkja Vesturbæinn“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Hugmyndir starfshópsins hafa þegar verið kynntar í hverfisráði Vesturbæjar, umhverfis- og skipulagsráði og íþrótta- og tómstundaráði.

„Við KR–ingar fögnum þessari viljayfirlýsingu KR og Reykjavíkurborgar. Með uppbyggingunni sem er framundan mun íþróttaaðstaða okkar KR-inga gerbreytast og félagsaðstaðan batna til mikilla muna. Það er ljóst að þessar breytingar munu styrkja rekstur og starfsemi KR til lengri tíma. Í dag eru iðkendur KR á þriðja þúsund á öllum aldri og fer fjölgandi, í 14 íþrótta- og félagsdeildum, því er brýnt að bregðast við fjölgun iðkenda og mæta þörfum þeirra og óskum,“ segir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR.