Viðsnúningur á einu ári – aukið fjármagn í skólastarf í Reykjavík

Fjármál

""

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 og fimm ára áætlun til 2021 var samþykkt á fundi borgarstjórnar seint í gærkvöld. Viðsnúningur hefur orðið á rekstri borgarinnar á einu ári vegna hærri tekna og lægri útgjalda. Ákveðið hefur verið að nýta svigrúmið m.a. til að hækka framlög til skólastarfs í borginni  um 1,5 milljarð.

Helstu breytingar milli umræðna eru að auknu fjármagni verður varið til skólamála og breyttar forsendur vegna þjóðhagsspár Hagstofu Íslands.

Alls hækka fjárveitingar til grunn- og leikskólahluta skólanna í borginni um 1,5 milljarð, þar af 860 milljónir til grunnskólanna ásamt því að 200 milljónum verður varið til sérstakra umbótaþátta með áherslu á læsi, verk-, tækni- og listnám, starfsþróun, móðurmálskennslu,túlkaþjónustu við börn af erlendum uppruna og lýðræði í skólastarfi m.a. innleiðingu Barnasáttmálans.

Hér fyrir neðan má sjá helstu verkefnin á næsta ári í skólakerfinu.

• Efling faglegs starfs í grunnskólum            144 m.kr.
• Efling faglegs starfs í leikskólum                 73 m. kr.
• Sérkennsla í leik- og grunnskólum            215 m. kr.
• Umbótaþættir                                            140 m. kr.
• Íslenskukennsla barna af erl. uppruna      76,5 m.kr.
• Námsráðgjöf á unglingastigi                        20 m. kr.
• Fjármagn v. langtímaveikinda                    273 m. kr.
• Skólahljómsveitir                                       18,5 m.kr.
• Sértækt klúbbastarf félagsmiðstöðva        23,6 m.kr.
• Skólaakstur með fötluð börn                      157 m. kr.
• Inntaka yngri barna í leikskólum                367 m. kr.
 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir ánægjulegt að breið samstaða hafi verið um að veita auknu fé til skólakerfisins í ljósi viðsnúnings í rekstri. „Þessi jákvæða þróun í rekstrinum er fagnaðarefni en um leið er mikilvægt að halda áfram á sömu braut af því að rekstur sveitarfélaga er viðkvæmur. Við höfum sagt að við vildum nýta það svigrúm sem skapast til að snúa vörn í sókn í skólamálum. Þar er vitanlega af mörgu að taka en þetta eru ákveðin og mikilvæg skref í þá veru byggt á samtölum og áherslum sem komið hafa fram í máli skólastjórnenda, kennara og foreldra sl. haust. ,“ segir Dagur.

Á næstu mánuðum verður  unnið að frekari greiningu á fjármálum skólanna og starfsemi skóla- og frístundasviðs. Markmið þeirrar vinnu er að ný úthlutunarlíkön og nýr fjárhagslegur grunnur liggi fyrir um mitt næsta vor. Yngri börn en áður verða einnig tekin inn á leikskóla borgarinnar, frá og með áramótum. Það er áfangi í því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.