Viðgerðir á útlistaverkum

""

Borgarráð hefur samþykkt að veita rúmlega 30 milljónum í bráðaviðgerðir á útilistaverkum í eigu Reykjavíkurborgar.

Viðgerðir á verkunum eru í umsjá Listasafns Reykjavíkur og hefur forvörður á vegum safnsins lagt mat á ástand þeirra.  Áætlaður kostnaður vegna sérfræðivinnu og bráðaviðgerða í ár verður tæplega 16 milljónir. Þá verður árlega  varið fimm milljónum næstu þrjú árin til áframhaldandi viðgerða.

Skráð útilistaverk í Reykjavík eru alls 183 en þar af eru 148 í eigu borgarinnar og ber Listasafn Reykjavíkur ábyrgð á þeim verkum.

Samkvæmt mati forvarðar eru einkum 11 verk sem brýnt er að laga og bæta sem fyrst, auk þess sem hreinsa þarf stöpla í garði Ásmundarsafns, bæta merkingar og fleira. Meðal verka sem verða lagfærð er verkið Fyssa eftir Rúrí í Grasagarði Reykjavíkur en þar munar mestu að vatnsdælur eru ónýtar og vatnsgangur virkar ekki.