Viðbrögð við fráviki í neysluvatni

Heilbrigðiseftirlit

""

Tilkynning frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um viðbrögð við fráviki í neysluvatni.

Í dag 11. janúar fékkst staðfesting á að í neysluvatnssýni sem Veitur ohf. tóku á þriðjudag þann 9. janúar sl. greindist ein E.coli í þremur sýnum úr borholum á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk. Sýnatakan var gerð vegna mikils vatnsveðurs.

Um leið og upp kom grunur um frávik í sýni var samstundis lokað fyrir dreifingu á neysluvatni frá þessum borholum til neytenda. Sama dag, þann 9. janúar, tók Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sýni úr dreifikerfinu, sem var í lagi. 

Í gær, miðvikudag 10. janúar, tóku Veitur endurtekin sýni og skv. upplýsingum frá rannsóknarstofu eru sýnin í lagi. Einnig tók Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur aukalega sýni af neysluvatninu úr dreifikerfinu og sýna rannsóknarniðurstöður að vatnið er í lagi.

Um er að ræða eina E.coli í 100ml, en skv. reglugerð um neysluvatn nr. 536/2001, á E.coli ekki að finnast í neysluvatni. Ljóst er að um minnsta mögulega frávik er að ræða.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur telur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar að ekki þurfi að grípa til frekari aðgerða og að neysluvatnið sé öruggt til neyslu.

Heilbrigðiseftirlitið tekur vikulega sýni af neysluvatninu skv. reglubundinni eftirlitsáætlun og er metið eftir aðstæðum hverju sinni hvort þurfi viðbótar sýnatökur.