Vetrarfrí í grunnskólunum 15.-19 febrúar

Menning og listir Skóli og frístund

""

Vetrarfrí í grunnskólum borgarinnar er að skella á og hefst fimmtudaginn 15. febrúar.

Fjölmargt verður í boði fyrir alla fjölskylduna um alla borg í vetrarfríinu; smiðjur, leikir og spil í frístundamiðstöðvum, alls slags þrautir að leysa saman hjá söfnunum, opin íþróttahús, ratleikir, frítt í sund og margt, margt fleira.

Í frístundamiðstöðinni Árseli í Árbænum má t.d. spreyta sig á því að búa til brjóstsykur, í Gufunesbæ verður hægt að klifra í turninum og fara í ratleik, bingó og spilaskemmtun verður í boði í Kringlumýri og útieldun við Miðberg í Breiðholtinu. Á Kjarvalsstöðum verður hægt að búa til ofurhetjugrímur og í Vesturbæjarlaug geta gestir tekið þátt í spurningarkeppninni Synt og svarað. 

Borgarbókasafnið verður með smiðjur, föndur og bingó í öllum menningarhúsum og Listasafn Reykjavíkur býður upp á ritsmiðjur fyrir 8-12 ára börn á Kjarvalsstöðum. Fullorðnir í fylgd með börnum fá frítt inn á öll söfn borgarinnar í vetrarfríinu! 

Kynnið ykkur dagskrá frístundamiðstöðva og menningarstofnana borgarinnar og njótið vetrarfrísins saman.