Verklegar framkvæmdir Reykjavík

Umhverfi Skipulagsmál

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var gestur á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins sem haldið var á föstudag og kynnti þar verklegar framkvæmdir Reykjavíkurborgar á þessu ári.

Framkvæmda- og fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar hljóðar upp á  8,7 milljarða í ár og fer upp í 9,3 milljarða á næsta ári.  Stærstu verkefnin sem ráðið verður í á næstu árum er nýr leik- og grunnskóli í Úlfarsárdal auk þess sem byggð verður í dalnum íþróttaaðstaða og bókasafn.  Af öðrum stórum skólaverkefnum sem ráðist verður í er viðbygging við Vesturbæjarskóla og Klettaskóla og hús fyrir frístundastarf Vogaskóla. Áfram verður unnið að endurbótum á skólalóðum grunnskóla og á þessu ári verður lokið við 2. áfanga lóða Árbæjarskóla, Breiðagerðisskóla, Fossvogsskóla og Ölduselsskóla.

Uppbygging íbúðasvæða

Mörg íbúðarsvæði eru á undirbúningsstigi og verður vaxandi kraftur í uppbyggingu þeirra á næstu árum. Reykjavíkurborg annast gatnagerð og að gera lóðir byggingahæfar. Meðal þeirra svæða sem eru á framkvæmdaáætlun í ár eru hafnarsvæðin, Hlíðarendi, reitir við Laugaveg og á Hlemmsvæðinu auk hverfa í Úlfarsárdal og Norðlingaholti þar sem unnið verður að ræktun og frágangi.

Almenningssamgöngur, hjólastígar, samgöngumiðstöð og aukin framlög til malbiksframkvæmda

Af stærri gatnaframkvæmdum sem eru á dagskrá eru gatnamót Geirsgötu og Lækjargötu, sem tengjast uppbyggingu í Austurhöfn. Þá verður Fellsvegur lagður en hann tengir betur Grafarholt og Úlfarsárdal. Þá verður áfram unnið í gerð forgangsreina fyrir strætó og unnið að úrbótum við biðstöðvar.  Þörf fyrir göngu- og hjólastíga verður áfram mætt af krafti, bæði verða lagðir nýir stígar og endurbætur gerðar á eldri stígum. Átak verður gert í að bæta aðstöðu með hjólastöndum og hjólaskýlum.

Dagur gerði malbiksframkvæmdir að umtalsefni og varpaði upp glæru þar sem greint var frá nýsamþykktri tillögu umhverfis- og skipulagsráðs um aukið fé til þeirra en með samþykkt hennar eru fjárframlög til malbiksframkvæmda 690 milljónir króna árið 2015, sem eru sömu framlög og árið 2008, að núvirði. 

Ný samgöngumiðstöð með fjölbreyttum möguleikum fyrir almenningssamgöngur, hjólaleigur og snjallbíla mun rísa í Vatnsmýrinni á næstu árum. Hönnunarsamkeppni um skipulag umferðarmiðstöðvar verður væntanlega á þessu ári.

Endurgerð á torgum og götum miðborgar

Dagur sagði að áfram yrði unnið að endurgerð á torgum og götum miðborgarinnar. Endurgerð á Hverfisgötu hafi tekist vel og mannlífið blómstrar.  Nú í ár verður Smiðjustígur endurgerður og Hjartatorg  endurbyggt. Samkeppni var nýlega haldin um endurgerð Laugavegar og verður hugað að hönnun á þessu ári, en framkvæmdir árið 2017.  Á dagskrá eru einnig torg í Þingholtum, Óðinstorg, Baldurstorg og Freyjutorg en tillögur um endurgerð þeirra voru fyrst settar fram af Evu Maríu Jónsdóttur sjónvarpskonu árið 2000.  Á næsta ári verður áfram unnið að endurgerð Frakkastígs sem og síðusta kaflanum á Hverfisgötu.

Ný útilaug við Sundhöllina

Við Sundhöllina verður byggð ný útisundlaug á grundvelli hönnunarsamkeppni og í Úlfarsárdal verður byggð sundlaug og nýtt íþróttahús hverfisins.  Framkvæmdir hefjast á báðum stöðum innan tíðar.
Þá verður ráðist í skemmtilega uppbyggingu fyrir káta krakka í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Það verkefni er viðvarandi á dagskrá næstu fimm ár.  Nýr frjálsíþróttavöllur verður byggður upp í Mjóddinni á athafnasvæði ÍR.

Betra svið í Borgarleikhúsinu og stækkun Grófarhúss

Af verkefnum tengd menningar- og ferðamálum ber hæst á þessu ári ný geymslubygging við Árbæjarsafn, en einnig eru fyrirhugaðar miklar endurbætur á sviði Borgarleikhússins. Á næsta ári verður mestu fé varið í viðbyggingu við borgarbókasafnið í Grófarhúsi.

1,7 milljarður til viðhaldsverkefna í fasteignum borgarinnar

Til reglubundins viðhalds fasteigna Reykjavíkurborgar er ráðstafað rúmum 900 milljónum, en einnig verður 800 milljónum varið í átak vegna stærri viðhaldsverkefna.  Stærstur hluti þessa fjár fer til skóla- og leikskóla.

Mikil almenn uppbygging í Reykjavík

Dagur gerði einnig að umtalsefni mikla almenna uppbyggingu í Reykjavík. Áform fyrirtækja, verktaka og fjárfesta, væru í takt fyrir framtíðarsýn borgarinnar og aðalskipulag um þéttingu byggðar.  Reykjavíkurborg hefur efnt til samstarfs þar sem hugsað verður fyrir markmiðum borgarinnar um að stuðla að uppbyggingu leigumarkaðar og félagslega blöndun.  Hann greindi einnig frá samstarfi um búseturéttaríbúðir, námsmannaíbúðir og íbúðir fyrir aldraða.  Nánari upplýsingar er að finna í glærukynningu sem sýnd var á fundinum.

 

Tengt efni:

Kynning borgarstjóra á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins.