Verkefni umboðsmanns borgarbúa framlengt

Stjórnsýsla

""

Borgarstjórn ákvað á fundi sínum í gær að framlengja verkefni umboðsmanns borgarbúa um 18 mánuði. Jafnframt var forsætisnefnd falið að vinna að nánari skilgreiningu fyrir starfsemi umboðsmanns og gera tillögu að framtíð embættisins með vísan til umfjöllunar í áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa.

Umboðsmaður borgarbúa, Ingi B. Poulsen hdl., tók til starfa 1. mars 2013. Hann hefur nú skilað áfangaskýrslu um starfsemi embættisins sem rædd var á fundi borgarstjórnar í gær. Þar var farið yfir forsöguna að stofnun embættisins og starfsemina frá því skrifstofa umboðsmanns opnaði 2. maí 2013.

423 erindi hafa borist embættinu. Langflest eru frá einstaklingum eða 350, frumkvæðisrannsóknir eru 21, ábendingar starfsmanna eru 17 og erindi er fjalla um ráðgjöf og fræðslu eru 35. Í upphafi var áætlað að á bilinu 60 - 100 erindi myndu berast embættinu á tilraunatímabilinu. Málafjöldi er því margfaldur umfram það sem áætlað var.

Þrátt fyrir mikinn málafjölda hefur umboðsmaður náð að ljúka 301 máli, 91 mál er enn í vinnslu og 31 mál er í biðstöðu. Langflest málin tengjast starfsemi velferðarsviðs eða 154 en næstflest tengjast starfsemi umhverfis- og skipulagssviðs eða 108.

Grundvallarverkefnum umboðsmanns borgarbúa má skipta í fjóra þætti:

  • Veita borgarbúum leiðbeiningar, ráðgjöf og álit.
  • Taka mál til athugunar að eigin frumkvæði.
  • Taka á móti, rannsaka og koma á framfæri upplýsingum frá starfsmönnum um misbresti og fleira.
  • Veita fræðslu og ráðgjöf innan kerfis.

Áfangaskýrsla umboðsmanns borgarbúa.

Heimasíða umboðsmanns borgarbúa.

Umræður um áfangaskýrsluna í borgarstjórn.