Vel heppnuð öskudagsráðstefna kennara

Skóli og frístund

""
600 grunnskólakennarar í borginni sátu ráðstefnuna Rödd nemandans sem haldin var á öskudag. 
Salurinn á Hilton Reykjavik Nordica hóteli var þétt setinn á árlegri ráðstefnu kennara þar sem aðalfyrirlesari að þessu sinni var Rekha Bhakoo skólastjóri Newton Farm skólans í Lundúnum. Í erindi sínu fjallaði hún um hvernig ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru fléttuð inn í allt skólastarf og hvernig nemendur og kennarar nýta þau til uppbyggjandi umræðna til að bæta skólastarfið. Góður rómur var gerður að erindi hennar og mun hún kynna þessar kennsluaðferðir fyrir skólastjórnendum í Reykjavík í dag.
 
Fimm málstofur voru einnig í boði á ráðstefnunni. Í þeirri fjölmennustu fjallaði Andri Snær Magnason rithöfundur um þörfina fyrir annars slags menntun í ljósi umhverfismála og alþjóðavæðingar. Þá var í málstofum fjallað um Biophiliu-verkefnið og tónvísindasmiðjur, um reynslu af nemendamiðuðu skólastarfi í Norðlingaskóla, samvinnunám og upplýsingatækni í skólastarfi. Þá var yfirskrift einnar málstofu Hvernig vitum við hug þeirra?  þar sem sagt var frá tilraunaverkefni um aukið nemendalýðræði, s.s. með stórfundum unglinga, til að auka aðkomu nemenda að skipulagi skólastarfsins. Þar sögðu tveir fulltrúar úr Reykjavíkurráði ungmenna frá hugmyndum  sínum um hvernig nemendur geta mótað og haft áhrif á skólastarfið.