Vel heppnuð heilsueflingar- og hreyfihátíð í Breiðholti

Velferð Skóli og frístund

""
Heilsueflandi Breiðholt var svo sannarlega í fullum gangi Íþróttahúsinu við Austurberg í morgun þegar lokahátíð Viku íþrótta og hreyfingar í Breiðholti fór fram. Myndir af viðburðinum má sjá með því að smella hér. Fólk lét rigningarveður lítið á sig fá og fjölmargir hófu dagskrána á léttri göngu, skokki og hjólreiðum um hverfið. Hressandi drykkur var í boði eftir gönguna og síðan settu allir 400 gestirnir Íslandsmet í fjöldareiptogi innanhúss (sjá myndband hér). Einnig voru afhentir bikarar fyrir besta árangur í spretthlaupskeppninni Bolt í Breiðholti. Mikil og góð stemmning var á viðburðinum og greinilegt að það er hugur í Breiðholtsbúum að sýna og sanna að hverfið sé heilsueflandi í alla staði.
Seljaskóli vann heildarkeppni skólanna í jafnri og spennandi keppni. Fellaskóli varð í öðru sæti og Breiðholtsskóli í því þriðja í heildarkeppninni. Fimm bekkir í Seljaskóla; 1, 2, 4, 6 og 7. bekkur unnu keppnir milli árganganna, en Breiðholtsskóli fékk verðlaun fyrir hraðasta 3. bekk og Ölduselsskóli fyrir hraðasta 5. bekk.
 
Þá fengu hröðustu einstaklingarnir afhenta bikara, en það voru þau Edda Lilja Viktorsdóttir í 7. bekk Breiðholtsskóla og Leszek Tomasz Kisielewski í 7. bekk Fellaskóla. Sigurvegurum er óskað innilega til hamingju með árangurinn sem og öllum þátttakendum.
 
Heilsueflandi Breiðholt og ÍR halda utan um framkvæmd og skipulagningu Viku hreyfingar og íþrótta í Breiðholti í samvinnu við alla grunnskóla í hverfinu og samráði við fulltrúa FeelEwos sem er alþjóðlega heiti vikunnar. Verkefnið er styrkt af Erasmus+. Auk þeirra 2000 barna sem tóku þátt í spretthlaupinu í Breiðholti eru önnur 10 þúsund börn á Ítalíu, Spáni, Portúgal, Króatíu og Tyrklandi sem taka þátt í verkefninu.